Börn og notkun stafrænna miðla - heima og í nýsköpunarsmiðjum eða gerverum (e. makerspaces)

Málstofa 19. apríl 2017, kl. 15:15 í H205 (útsending á https://c.deic.dk/ut)
 
Börn og notkun stafrænna miðla - heima og í nýsköpunarsmiðjum eða gerverum (e. makerspaces)
Menntavísindasvið Háskóla Íslands tekur nú þátt í Evrópuverkefninu MakEY (Makerspaces in the early years: Enhancing digital literacy and creativity).
Sjá http://makeyproject.eu/ og http://skrif.hi.is/rannum/rannsoknir/makey/.
 
Um er að ræða samstarfsverkefni fjölmargra háskóla og stofnana innan Evrópu og utan undir forystu Sheffield University í Bretlandi. Nokkrar íslenskar stofnanir taka einnig þátt í verkefninu auk Menntavísindasviðs HÍ (HA, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Menntaráðgjöf/Innoent).
 
Gögnum verður safnað með rafrænni könnun og eigindlegum athugunum á notkun ungra barna á nýrri tækni í sérstökum rýmum/smiðjum sem henta til nýsköpunar (makerspaces). Hugtakið “makerspace” hefur verið þýtt sem nýsköpunarsmiðja eða gerver.
 
Fræðimenn við Menntavísindasvið HÍ munu gera rannsóknir á þessu sviði hér á landi og kynna sér verkefni og starfsemi í rýmum af þessum toga í Þýskalandi, Bretlandi, Danmörku og Rúmeníu í samvinnu við þarlenda skóla og stofnanir. Þátttakendur frá HÍ eru: Gísli Þorsteinsson,  Salvör Gissurardóttir, Svanborg R. Jónsdóttir, Svava Pétursdóttir, Torfi Hjartarson, Skúlína H. Kjartansdóttir og Sólveig Jakobsdóttir (ábyrgðarmaður f.h. Menntavísindasviðs). Torfi er nú staddur í Berlín í tengslum við verkefnið og Salvör á leið þangað.
 
Við fáum einnig heimsóknir hingað og fyrsti gesturinn okkar er Fiona L. Scott sem er í doktorsnámi og starfar við University of Sheffield. Hún ætlar að halda erindi á málstofu á morgun 19.4. á vegum rannsóknarstofanna RANNUM, RASK, RAUN og RannUNG og kynna MakEY verkefnið ásamt Skúlínu Kjartansdóttur, doktorsnema við Menntavísindasvið. Sjá nánari upplýsingar hér fyrir neðan:
 
Sjónvarpsáhorf ungra barna í Bretlandi heima við - og notkun tengdra miðla
(UK Preschooler's Home Engagement with Television and Related Media)
Fiona L. Scott, PhD Researcher, The University of Sheffield
 
Fiona L. Scott mun kynna helstu niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem framkvæmd var með blönduðum aðferðum (e. mixed methods). Gerð var könnun sem 1200 breskir foreldrar tóku þátt í en einnig var fylgst með börnum átta fjölskyldna á heimilum þeirra í Bretlandi. Fiona mun ræða það hlutverk sem sjónvarp og tengdir miðlar leika í að móta upplifun barna af heiminum og í námi. Niðurstöður rannsóknarinnar veita innsýn í hvernig stafræn tækni, leikur og læsi tengjast innbyrðis. Þau tengsl varpa ljósi á víðtæka reynslu barna og fjölskyldna þeirra af sjónvarpsáhorfi og notkun tengdra miðla á ólíkum nútímaheimilum í Bretlandi. Þar getur félagsleg staða skipt máli.
 
Að loknu erindi Fionu mun hún ásamt Skúlinu Hlíf Kjartansdóttur kynna MakEY verkefnið og að lokum verður umræða um gerver og möguleika þeirra í menntun barna.

Fiona L. Scott

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is