Hlutverk og starfsemi

Meginhlutverk Menntavísindastofnunar er að efla rannsóknir og rannsóknaumhverfi innan menntavísindasviðs og stuðla að miðlun og nýtingu þekkingar á þeim vettvangi sem sviðið þjónar. Stofnuninni er ætlað að styðja rannsóknarstofur og einstaka rannsakendur með því að veita aðstoð við gerð umsókna í rannsóknasjóði; bæði innlenda og erlenda samkeppnissjóði auk annarra fjármögnunarleiða. Stofnunin skal gangast fyrir og greiða fyrir ráðstefnum, málstofum, fyrirlestrahaldi og útgáfustarfsemi sem tengjast rannsóknum og rannsóknarstofum við sviðið og bera faglega ábyrgð á árlegri ráðstefu Menntavísindasviðs, Menntakviku: um rannsóknir, nýbreytni og þróun. 
 
Enn fremur skal stofnunin stuðla að samstarfi rannsakenda sviðsins við fræðimenn utan þess, bæði innlenda og erlenda, svo og samstarfi við tengdar stofnanir innan og utan Háskóla Íslands. Að auki skal stofnunin sinna rannsóknar- og þjónustuverkefnum sem tengjast fræðasviðum Menntavísindasviðs, stuðla að sýnileika rannsókna innan sviðsins og út á við og eiga samstarf við aðila innan sviðsins um kennslu í aðferðafræði, tengsl rannsókna við vettvang og þjálfun nemenda í vísindalegum vinnubrögðum.
 
Stofnunin skal, í samráði við deildir Menntavísindasviðs, stofur stofnunarinnar og ýmsa hagsmunaaðila eftir atvikum, stuðla að starfsþróun á vettvangi menntamála. Þetta starf getur meðal annars falist í margvíslegri ráðgjöf, skýrslugerð, námskeiðahaldi og starfsþróun á vettvangi, en einnig í umsjón með nemendum sem sækja námskeið á vegum deilda sviðsins.
 
Á Menntavísindasviði eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir á sviði menntunar, uppeldis og þjálfunar í þeim tilgangi að skapa nýja þekkingu íslensku samfélagi til hagsbóta. Markmiðið er að efla rannsóknir og leitast við að tryggja að skipulag og þróun íslenskra fræðslu- og menntamála geti verið byggt á bestu fáanlegu þekkingu á hverjum tíma.
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is