Atgerfi ungra íslendinga

Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka lífsstíl níu og fimmtán ára Íslendinga og var rannsóknin framkvæmd skólaárið 2003-2004. Úrtakið var 1323 níu og fimmtán ára börn í 18 grunnskólum á Íslandi. 939 forráðamenn gáfu samþykki fyrir þátttöku barna sinna og var þátttökuhlutfallið því um 71 %. Rannsóknin var framkvæmd á landsvísu og forsendur úrtaks voru að 60% þátttakenda væri af höfuðborgarsvæðinu, 35% úr bæjum út á landi og 5% úr dreifbýli. Fjölmargir lífsstílsþættir voru rannsakaðir, s.s. holdafar, þrek, líkamshreyfing og mataræði, auk þess sem blóðsýni voru tekin og spurningalistar lagðir fyrir þátttakendur.
 
Helstu niðurstöður sýna að um 20% af þeim 9 og 15 ára íslensku börnum sem þátt tóku í rannsókninni eru of feit eða of þung. Of þung börn hafa minna þrek en þau sem eru í kjörþyngd, og því hærra sem fituhlutfall þátttakenda var því minna hreyfðu þeir sig. Bæði 9 og 15 ára drengir hreyfa sig meira og hafa meira þrek en jafngamlar stúlkur. Athyglisvert er að þegar ferill ofþyngdar hjá börnum er skoðaður afturvirkt kemur í ljós að 51% barna sem eru of þung við 6 ára aldur eru það einnig við 15 ára aldur. Meðalþyngd barna er að aukast því að við 9 ára aldur voru börn fædd 1994 0,5 kg þyngri en börn fædd 1988 og að sama skapi eru tvöfalt fleiri börn skilgreind sem of feit í 1994-árganginum, bæði við 6 og 9 ára aldur. Hlutfall orkuefna í fæði barnanna var að jafnaði samkvæmt ráðleggingum, að undanskildum viðbættum sykri og mettaðri fitu sem voru hærri og neyslu mjúkrar fitu og trefjaefna sem var lægri en ráðlagt er. Ávaxta- og grænmetisneysla var lítil og hið sama gildir um fiskneyslu en hún var að meðaltali um 30 grömm á dag. Meðalneysla sætra drykkja var um hálfur lítri á dag og um 40% sykurs í fæði barnanna komu úr sætum drykkjum. Of þungir 9 ára drengir borðuðu meira magn af mat, sælgæti, sætum drykkjum og kjötvörum en drukku minna af mjólk en jafnaldrar þeirra í kjörþyngd. Of þungar 9 ára ára stúlkur og 15 ára drengir greindu sig ekki frá jafnöldrum sínum í orkuinntöku. Íþróttaiðkun íslenskra barna og unglinga er algeng. Fleiri börn hreyfa sig og taka þátt í íþróttum innan íþróttafélaga 2003 – 2004 en 1992. Skipuleg íþróttaiðkun er að aukast þar sem þeir sem stunda íþróttir æfa meira en áður og tengist það ýmsum þáttum í umhverfi íþróttanna. En þrátt fyrir aukna þátttöku í íþróttum og hreyfingu eru ýmsir kyrrsetuþættir orðnir fyrirferðarmiklir í lífi ungs fólks og piltar eyða meiri tíma í tölvuleiki og horfa meira á sjónvarp en stúlkur.
 
Þessar rannsóknarniðurstöður gefa til kynna að offita Íslenskra barna sé mjög alvarlegt heilbrigðisvandamál, sérstaklega vegna þess að ástæður aukins hreyfingarleysis og offitu barna eru ekki alveg augljósar. Fullyrða má að offituvandinn eigi rætur sínar að rekja til þeirra miklu samfélags- og menningarlegu breytinga sem orðið hafa á undanförnum árum í vestrænum nútímaþjóðfélögum. Í ljósi þess verður í framtíðinni að gripa til markvissra samfélagslegra aðgerða til að draga úr mætti þess offituhvetjandi umhverfis sem fólk á Íslandi býr við. Aðgerðaáætlanir verða því að stefna að bættu mæðra- og ungbarnaeftirliti, auknu vægi hreyfingar í skólastarfi leik-, grunn- og framhaldsskóla, sem og að tryggja að í skólum sé í boði hollur og næringaríkur matur. Nauðsynlegt er að efla vitund og ábyrgð foreldra á mikilvægi hreyfingar og hollu og réttu mataræði fyrir alla í fjölskyldunni. Auka þarf fjölbreytileika íþróttastarfs á vegum íþróttafélaga þannig að starfið höfði til fleiri einstaklinga og tryggja verður að börn yngri en 10 ára hafi frían aðgang að íþróttaþjálfun. Mikilvægt er að sveitarfélög tryggi að góðir leikvellir, sparkvellir, útivistarsvæði, hjólastígar og önnur opin svæði séu til staðar. Að lokum er afar brýnt að stjórnvöld marki skýrari stefnu varðandi aðgerðir og að í framtíðinni verði meiri fjármunum veitt til rannsókna á þessu fræðasviði.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is