Lífsstíll 7-9 ára barna

Viðfangsefni rannsóknarinnar var að kanna líkamsástand barna í 2. bekk í grunnskólum í Reykjavík og  finna út hvort sértækar íhlutunaraðgerðir sem stuðla að breyttu mataræði og aukinni hreyfingu hafi áhrif á holdarfar, þrek, mataræði og blóðgildi hjá börnunum á tveggja ára rannsóknartímabili.
Líkamsástand var kannað í byrjun og lok rannsóknartíma með því að mæla líkamsþyngdarstuðul, líkamsfitu, líkamsástand með þrekprófi, líkamshreyfingu með hröðunarmælum og lífefnafræðilegar mælingar í blóði. Einnig var hreyfing og mataræði athugað með spurningalistum til barna og foreldra.
Rannsóknin var gerð á um 300 börnum í grunnskólum í Reykjavík sem fóru haustið 2006 í 2. bekk og var helmingur barna í íhlutunarhópi (Fossvogsskóli, Langholtsskóli og Seljaskóli) en hinn helmingurinn í viðmiðunarhópi (Árbæjarskóli, Ingunnarskóli og Laugarnesskóli). Rannsóknin var framkvæmd á árunum 2006-2008.
Íhlutunin fólst í því að auka hreyfingu og stuðla að breyttu mataræði hjá öllum börnum í íhlutunarhópi og einnig því að vera með sértækar íhlutanir í þeim hluta hópsins sem telst áhættuhópur með tilliti til ofþyngdar. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því hvort sértækar aðgerðir í skólum geti stuðlað að hollari lífsháttum, bætt heilsu og vellíðan, og þar með minnkað heilsufarsvandamál tengd lifnaðarháttum.   
Rannsakendur eru: Erlingur Jóhannsson,  Inga Þórsdóttir,  Ingvar Sigurgeirsson,  Hannes Hrafnkelsson,  Ása Guðrún Kristjánsdóttir,  Kristján Þór Magnússon, Katrín Heiða Jónsdóttir og Erna Héðinsdóttir.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is