Um stofuna

Helstu viðfangsefni rannsóknastofunnar snerta:
• Námskrár, námskrárþróun og námskrárgerð á öllum stigum skólakerfisins
• Mat á námi og kennslu á öllum skólastigum
• Skipulag náms og kennslu á öllum skólastigum.
 
Starfsemi 2012
Rannsóknastofa um námskrá, námsmat og annað námsskipulag (NNN) var stofnuð 19. janúar 2012. Stofnendur voru um 27. Á stofnfundinn mættu m.a. stafsmenn af Menntavísindasviði Háskóla Íslands og starfandi kennarar í grunn- og framhaldsskólum. Nokkrir boðuðu forföll en óskuðu eftir að gerast stofnfélagar. 
 
Kjörin var þriggja manna stjórn og hana skipa: Gunnar E. Finnbogason, prófessor – formaður; Jóhanna Karlsdóttir, lektor – gjaldkeri og Meyvant Þórólfsson, lektor – ritari.
Auk ráðgjafarverkefna og námskeiða hefur rannsóknastofan haldið þrjá opna umræðufundi, m.a. í samstarfi við aðrar rannsóknastofur.
 
Í mars stóð NNN Rannsóknastofa fyrir tveimur opnum umræðufundum um þýðingu Aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla fyrir menntun kennara og annarra sem stunda nám í uppeldis- og menntavísindum. Á fyrri fundinum voru þessar spurningar ræddar í víðu, sögulegu samhengi með hliðsjón af því að námskrár almenna skólakerfisins taka stöðugum breytingum frá einum tíma til annars; hin opinbera námskrá skyldunáms hefur til dæmis birst í fimm gjörólíkum myndum undanfarin 50 ár, enda samdar og lagðar fram á grundvelli ólíkra skólapólitískra sjónarmiða. Á seinni fundinum voru spurningarnar reifaðar og ræddar í ljósi núgildandi laga um skólakerfið frá 2008 og Aðalnámskrár 2011, þar sem hugmyndir um grunnþætti, námssvið, hæfniviðmið og lykilhæfni liggja til grundvallar ásamt fjölbreytilegu mati með breyttu sniði frá því sem áður þekktist.
 
Hinn 22. maí stóð NNN Rannsóknastofa fyrir málþingi, ásamt þremur öðrum rannsóknastofum, undir yfirskriftinni Álitamál í kennslu frá sjónarhorni fjögurra námsgreina. Þar var tekinn upp þráðurinn frá 1989 þegar framsögumenn skrifuðu hver sinn kaflann í rit með sama heiti. Baldur Hafstað fjallaði um álitamál í íslenskukennslu, Erla Kristjánsdóttir um álitamál í samfélagsfræðikennslu, Sigurður Pálsson um álitamál í kristinfræðikennslu og loks Stefán Bergmann um líffræðikennslu. Ingvar Sigurgeirsson hóf málþingið með inngangsorðum þar sem hann bar skólamálaumræðuna nú á dögum saman við fyrir sams konar umræðu fyrir 23 árum.
 
Á stofnfundi fór fram ítarleg umræða um rannsóknatækifæri á sviðinu og mögulega rannsóknastyrki. Áfram er haldið þeirri umræðu og er nú unnið að drögum að áætlun um rannsóknir og þróunarstarf í samstarfi við skylda aðila og einnig skrifum og útgáfu texta á íslensku um námskrárfræði.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is