Opnun aðgangs að umfangsmiklu gagnasafni um starfshætti í grunnskólum

Formleg opnun aðgangs fyrir fræðimenn og háskólanema að umfangsmiklu gagnasafni um starfshætti í grunnskólum fer fram föstudaginn, 9. september nk. kl. 15.00, í stofu H-101, HÍ, Stakkahlíð.

Um er að ræða gögn úr rannsókninni Starfshættir í grunnskólum sem nú eru í umsjá Menntavísindastofnunar. Þeim var safnað á árunum 2009-2011 í 20 grunnskólum um landið með yfirgripsmiklum spurningakönnunum til nemenda, foreldra og starfsmanna (alls spurt um 900 atriði), vettvangsathugunum í yfir 500 kennslustundum í 1.-10. bekk og yfir 150 viðtölum við stjórnendur, kennara og nemendur.

Forseti menntavísindasviðs, Jóhanna Einarsdóttir, opnar safnið. Fyrrverandi formaður stjórnar rannsóknarinnar, Anna Kristín Sigurðardóttir, og fyrrverandi verkefnisstjóri, Gerður G. Óskarsdóttir, kynna þá möguleika sem liggja í gögnunum og sýna dæmi úr þeim. Hér er um sögulegan atburð að ræða á Menntavísindasviði. Fram til þessa hafa íslenskir fræðimenn og háskólanemar í menntavísindum ekki haft aðgang að sambærilegu gagnasafni.

Meginniðurstöður voru kynntar í bókinni Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar, útg. 2014, en gögnin gefa tilefni til mun ítarlegri úrvinnslu. Áhugavert getur verið fyrir fræðafólk að vinna nánar úr gögnunum út frá mismunandi sjónarhornum. Þar má nefna kennsluhætti í einstökum námsgreinum eða árgögnum grunnskólans, samskipti nemenda og kennara, hegðun nemenda, stjórnun kennara, frumkvæði nemenda og áhrif þeirra á framvindu námsins. Einnig má nefna fyrirkomulag nestistíma, upphaf og lok kennslustunda, tímanýtingu, samkennslu, hlut stuðningsfulltrúa, margbreytileika nemenda og áherslu kennara á að fjalla um markmið eða tilgang einstakra námsþátta. Taka mætti sum ofannefndra viðfangsefna fyrir á ákveðnum stigum grunnskólans, þ.e. yngri barna stigi, miðstigi eða unglingastigi. Jafnframt gefa gögnin möguleika á langtímarannsóknum og samanburðarrannsóknum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is