Rannsóknir

Á Menntavísindasviði eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir á sviði menntunar, uppeldis og þjálfunar í þeim tilgangi að skapa nýja þekkingu íslensku samfélagi til hagsbóta. Markmiðið er að efla rannsóknir og leitast við að tryggja að skipulag og þróun íslenskra fræðslu- og menntamála geti verið byggt á bestu fáanlegu þekkingu á hverjum tíma.

Menntavísindastofnun hefur það hlutverk að efla rannsóknir og rannsóknarumhverfi innan Menntavísindasviðs. Það er gert með því að styðja rannsóknarstofur og einstaka rannsakendur á sviðinu með aðstoð við að skipuleggja rannsóknir, við gerð umsókna í rannsóknasjóði, koma að ráðgjöf við birtingar á niðurstöðum rannsókna og veita upplýsingar og ráðgjöf um rannsóknasjóði og aðrar fjármögnunarleiðir bæði innlendar og erlendar. Stofnuninni er einnig ætlað að greiða fyrir ráðstefnum á sviðinu, málstofum, fyrirlestrahaldi og útgáfustarfsemi sem tengist rannsóknum. Menntavísindastofnun skal bera faglega ábyrgð á árlegri rástefnu Menntavísindasviðs, Menntakviku, stuðla að samstarfi rannsakenda á sviðinu við fræðimenn og tengdar stofnanir innan sem utan Háskóla Íslands. Sinna rannsóknar- og þjónustu verkefnum sem tengjast fræðasviði menntavísindasviðs, stuðla að sýnileika sviðsins og styðja við þróunarverkefni sem unnin eru á sviðinu.

Þjónusta Menntavísindastofnunar felur í sér ráðgjöf, úttektir og framkvæmd rannsókna á öllum stigum rannsóknarferlisins, allt frá þróun rannsóknarspurninga til kynningar á niðurstöðum. Sú þjónusta er í boði fyrir starfsmenn Menntavísindasviðs, rannsóknarstofur, stofnanir, opinbera aðila og félagasamtök.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is