Leikum lærum og lifum

Leikum, lærum og lifum
 
Þann 25. Janúar 2012 síðastliðinn gerði RannUng samstarfssamning við sveitarfélögin í Kraganum; Garðabæ, Hafnarfjörð, Kópavog, Mosfellsbæ og Seltjarnarnes, um rannsóknarverkefni í leikskólum. Markmið samstarfsins var að auka þekkingu á leikskólastarfi í sveitarfélögunum og stuðla að auknum gæðum í leikskólastarfi.
 
Markmið verkefnisins var að vinna með tengsl leiks og náms í leikskólum út frá námsviðum aðalnámskrár leikskóla frá 2011. Skoðað var hvernig leikskólakennarar, umhverfið og barnahópurinn studdu við leik barna og nám. Gengið var út frá víxlverkun leiks og náms, þar sem leikurinn styður við nám og nám styður við leik. Starfendarannsókn og þróunarvinna var framkvæmd í fimm leikskólum, einum í hverju sveitarfélagi, þar sem ein deild tók þátt úr hverjum þeirra.
Sérfræðingar og meistaranemar við Menntavísindasviði Háskóla Íslands unnu með starfsmönnum leikskólanna og leiðbeindu um framkvæmd rannsóknarinnar.
 
Starfendarannsókn er rannsóknaraðferð sem miðar að því að kennarar endurskoði starf sitt með það fyrir augum að bæta eigin starfshætti. Kennarar sem taka þátt í slíkum rannsóknum beina athyglinni að eigin starfsháttum. Prófaðar eru nýjar leiðir sem kennararnir sjálfir taka þátt í að móta. Gerðar eru athuganir á því hvernig til tekst með því að afla gagna sem síðan eru greind og túlkuð.
 
Ferill starfendarannsókna:
Skoða núverandi starfshætti
Koma auga á hvað megi  bæta
Skipuleggja breytingar og ný vinnubrögð
Innleiða ný vinnubrögð
Leggja mat á ný vinnubrögð
 
Starfsfólk deildanna sem tók þátt ákváðu hvaða áherslu og leiðir voru farnar í samráði við meistaranema og sérfræðing. Það aflaði sér upplýsinga um sitt námsvið, gerði vettvangsathuganir og hélt dagbækur. Starfsfólkið skráði og ígrundaði eigið starf og tók ákvörðun um hvernig það gat betrumbætt starfshætti inni á deild. Í lok verkefnisins var tekin ákvörðun um starfshætti sem þróast höfðu yfir rannsóknartímann. 
 
Bók er væntanleg á haustmánuðum 2016 um rannsóknarverkefnið.
 
Meistaranemar:
Bryndís Guðlaugsdóttir
Elín Guðrún Pálsdóttir
Erla Ósk Sævarsdóttir
Lena Sólborg Valgarðsdóttir
Sara Margrét Ólafsdóttir
 
Sérfræðingar:
Bryndís Garðasdóttir
Freyja Birgisdóttir
Kristín Karlsdóttir
Kristín Norðdahl
Svanborg R. Jónsdóttir
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is