Menntastefna Reykjavíkur til ársins 2030

Vorið 2018 gerðu RannUng og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur með sér samning um verkefni sem styður við menntastefnu Reykjavíkur. Verkefnið ber heitið Leikur, styðjandi samskipti og lærdómssamfélag.

Markmiðið með verkefninu er að efla fagmennsku deildarstjóra og annars starfsfólks leikskóla í þeim tilgangi að ná fram markmiðum sem sett hafa verið fram í nýrri menntastefnu Reykjavíkur. Þar kemur fram áhersla á læsi, sjálfseflingu, skapandi hugsun, félagsfærni og heilbrigði barna. Ætlunin er að þátttakendur þrói starf í leikskólum út frá þessum þáttum með megináherslu á nám í gegnum leik og vel ígrunduð og styðjandi samskipti. Til að styrkja megi leikskólann sem lærdómssamfélag er stutt við börn sem virka þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi þar sem þau fá tækifæri til að tjá sig, hlusta á aðra og hafa áhrif á eigið líf. Þannig verður unnið að jafnréttissjónarmiðum skv. Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar s.s. út frá jafnrétti kynja, aldri, fötlun og uppruna barna. Ávinningur leikskólans felur í sér að efla fagmennsku í starfi deildarstjóra og annars starfsfólk.  

Verkefnið verður skipulagt í samvinnu við þátttökuskólana sem reiknað er með að verði 8 talsins (10 starfstöðvar). Þátttakendur og megin tengiliðir hvers leikskóla verða 1-3 deildarstjórar á hverri starfsstöð.

Sérfræðingateymi frá Háskóla Íslands mun starfa með leikskólunum ásamt meistaranemum auk þess sem sérfræðingar skóla- og frístundasviðs verða til ráðgjafar við verkefnið. Verkefnið verður skipulagt sem starfendarannsókn þar sem deildarstjórar verða lykilpersónur í því að skoða hvernig börnum er mætt og á þau er hlustað af starfsfólki leikskólans. Jafnframt verður kannað hvort nýta megi skráningu og mat til að stuðla að réttindum barna eins og þeim er lýst í Menntastefnu Reykjavíkur og Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is