Skapandi lestur

Markmið
Markmið námskeiðsins er að ræða við starfandi kennara á mið- og unglingastigi og framhaldsskólakennara um lestur bókmennta út frá textafræðilegum sjónarhóli (ekki bókmenntalegum) og hvernig er hægt að örva tilfinningu nemenda og skapandi hugsun út frá efni skáldsögu, smásögu eða ljóðs. Í skapandi lestri felst líka þjálfun í því að nýta öll fimm skilningarvitin, þ.e. sjón, heyrn, ilman, smekk og tilfinningu. Skapandi lestur felur í sér að flestum þáttum íslenskukennslunnar er sinnt, þ.e. bókmenntum, málfræði, ritun og munnlegri tjáningu og þannig er unnið að því að gera námsgreinina heildstæða og gefa aukið vægi námsþáttum sem hafa haft tilhneigingu til að standa einir og tengjast illa öðru námsefni.
 
Viðfangsefni
Á fyrsta fundi verður haldinn stuttur fyrirlestur þar sem efni námskeiðsins verður kynnt svo og tilhögun á námskeiðinu. Eftir það velja þátttakendur sér skáldsögu af hvaða toga sem er, smásögu eða ljóð og vinna með hana undir stjórn kennara. Kennarar geta valið að vinna að ákveðnu þema úr bókmenntum ef þeir svo kjósa. Afurðin gæti orðið kennsluefni fyrir nokkrar vikur og hugsanleg vefútgáfa á því efni sem til verður ef þátttakendur óska eftir því.
 
Vinnulag
Gert er ráð fyrir því að þátttakendur hittist einu sinni í viku í 4 skipti, 3 stundir í senn, sem sé u.þ.b. 12 stundir alls. Ekki verður krafist neinna skila á milli vinnufunda en nemendur segja frá verkefnunum sem orðið hafa til í lok námskeiðsins.
 
Kennari
Þórunn Blöndal
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is