Stök einingabær námskeið haustönn 2017

Líkt og undanfarin ár er boðið upp á stök einingabær námskeið á Menntavísindasviði. Námskeiðin eru ætluð þeim sem lokið hafa BA, B.Ed eða BS gráðu á þeim fræðasviðum sem Menntavísindasvið menntar.

Námskeiðsgjald er 55 000,-  ef tekin eru fleiri en eitt námskeið á skólaári greiðist fullt skráningargjald við HÍ 75 000,-
 

Umsóknarfrestur er til 15. júní. 

Greiðsla þarf að berast áður en nemendur verða formlega skráðir og verða upplýsingar um greiðslufyrirkomulag sendar til þeirra sem skrá sig. 

Nánari upplýsingar um hvert námskeið er að finna í kennsluskrá HÍ, linkur undir heitum námskeiða.

Hér er listi yfir öll námskeiðin, án stuttra lýsinga

Tímasetningar námskeiða má finna hér.  Stundaskrá haustannar 2017 verður tilbúin fyrir 15. júní. 

LOKAÐ HEFUR VERIÐ FYRIR SKRÁNINGU sendið fyrirspurnir til Ásdísar Hrefnu Haraldsdóttur asdish@hi.is

Kennaradeild

NOK060F Námsmat og þróunarstarf í tungumálanámi  10e

Fjallað verður um ýmis lykilatriði í námsmati og prófagerð og nýjar stefnur og strauma. Hefðbundnar námsmatsaðferðir og stöðluð próf verður skoðað með gagnrýnum augum. Einnig verður fjallað um nýjar leiðir í námsmati, t.d. heildrænt mat (authentic assessment), sjálfsmat, jafningjamat og mat byggt á náms- eða ferilsmöppum (portfolio). Loks verður fjallað um þætti sem tengjast nýbreytni- og þróunarstarfi í tungumálakennslu, t.d. tungumálakennsla gegnum námsgreinarnar (Content and language integrated learning), kennsluaðferðir sem hæfa unga nemendur og nemendasjálfstæði. 
 

GSS104M Rannsóknar og þróunarvinna í list- og verkmenntun   10e

Nemendur takast á við sjálfstæð rannsóknarverkefni samkvæmt samningi.

Rannsóknarvinnan fer fram í gegnum verklega iðkun útfrá völdu viðfangsefni. Hún skal vera unnin eftir viðurkenndri rannsóknarleið innan list- og verkgreina, með áherslu á frjóa og skapandi hugsun og ígrunduð vinnubrögð. Nemandinn gerir námssamning um faglega dýpkun í völdu viðfangsefni sem fellur undir kennslu  í leik-, grunn- eða framhaldsskóla. Meginþættir rannsóknarvinnunnar eru gagnaöflun ásamt tilrauna- og þróunarvinnu. Áhersla er lögð á framsetningu verkefnis og að nemendur geti rökstutt niðurstöður sínar og lokaafurð.

 

NOK073F Menntunarfræði yngri barna   10e

Á námskeiðinu verður fjallað um sýn á börn, rannsóknir á námi þeirra og þá hugmyndafræði sem þær byggja á og athyglinni beint að ýmsum áherslum og álitamálum á sviðinu. Kynntar verða innlendar og erlendar rannsóknir og kenningar á eftirfarandi sviðum: 

·         Sýn á börn og nám í nútíma samfélagi: Fjallað verður um grundvallarhugmyndir um nám barna og hvernig þeim eru skapaðar námsaðstæður í skólum þar sem þátttaka, valdefling, lýðræði og vellíðan eru í brennidepli.

·         Félagslegur raunveruleiki barna og áhrif  hans á virka þátttöku þeirra í skólastarfi 

·         Þróun náms, skipulag námsumhverfis og fjölbreyttar leiðir til að meta nám ungra barna sem snerta meðal annars námssvið í leik- og grunnskóla.

Skráning

 

 

GSS102M Málrækt og málfræðikennsla  5e

Fjallað er um málrækt með áherslu á aðstæður á Íslandi, einkum í samtímalegu ljósi, og tengsl málræktar og málfræðikennslu
Skráning

 

GSS103M Sígildar sögur  5e

Námskeiðið er helgað þjóðsögum og miðaldabókmenntum og miðlun slíkra texta kennslu. Rýnt verður í valdar þjóðsögur og fjölbreytta bókmenntatexta frá miðöldum, svo sem goðsögur, valin eddukvæði og tilteknar Íslendinga sögur. Fjallað verður um þennan sagnasjóð í alþjóðlegu samhengi. Einnig verða lesnar ýmiss konar bókmenntir þar sem sóttar hafa verið fyrirmyndir til fornra frásagna og hugað að tengslum við menningu og listir á líðandi stund.
Skráning

  

GSS105M Færni og fæðuval    10e

Á námskeiðinu verður farið yfir hvernig þjálfa má færni við matreiðslu og hafa þannig áhrif á fæðuval ungra barna, eldri borgara og fólks með líkamlegar og/eða andlegar fatlanir eða sérþarfir. Þarfir og geta þessara hópa er að ýmsu leiti frábrugðin öðrum hópum og á námskeiðinu verður farið yfir þessa þætti. Einnig vinna nemendur námsefni og kennsluleiðbeiningar fyrir valinn hóp með sérþarfir.
Skráning
 

GSS083M Lífheimurinn og þróun   5e

Uppruni lífs, þróunaröfl (náttúrulegt val, stökkbreytingar, genaflökt, genaflæði o.fl.), stórir viðburðir í sögu lífsins, einkennislífverur mismunandi tímabila, útrýmingar og ástæður þeirra, þróun mannsins. Flokkunarkerfi lífvera. Kennarar og nemendur fjalla um helstu einkenni stærstu lífveruhópanna: bakteríur, þörungar, plöntur, sveppir, skordýr, krabbadýr, lindýr, liðormar, skrápdýr, fiskar, froskdýr, skriðdýr, fuglar spendýr. Grunnur í dýraatferlisfræði.  

Grunnskólakennsla í þróunarlíffræði og um lífheiminn.  Námskrá, námsefni, möguleikar netsins og hreyfiefnis í kennslu. 
Skráning

 

GSS704M Kennslufræði lífvísinda   5e

Í fyrirlestrum og umræðutímum verður fjallað um mikilvægi líffræði í almennri menntun og um rannsóknir á (i) hugtakaskilningi á grunnhugtökum líffræðinnar, (ii) gildi verklegrar kennslu almennt, (iii) gildi útináms og fl.  Rýnt verður í námsefni og önnur kennslugögn og rætt verður um aðferðir við námsmat. Í verklegum tímum  kynnast nemendur   notkun kennslutækja (smásjár, víðsjár, tölvur, myndavélar o.fl.), og fá tækifæri til að beita mismunandi aðferðum í kennslu, bæði í vinnustofu, úti við og í kennslustofu. 
Skráning


GSS117F Samfélagsgreinamenntun
  10e

Fjallað verður um stöðu, hlutverk og sögu samfélagsgreina, þ.e. , landafræði, lífsleikni, siðfræði, sögu, trúarbragðafræði og þjóðfélagsfræði og rannsóknir á sviði menntunar og kennslu í samfélagsgreinum, bæði erlendis og hér á landi. Skoðaðar verða kenningar og rökræður um viðfangsefni, hugtök og nálganir á þessu sviði í kennslu og skólastarfi með það fyrir augum að þátttakendur geti nýtt sér niðurstöður á skipulegan hátt. Áhersla er lögð á þverfaglega nálgun í samfélagsgreinakennslu um leið og nemendum gefst kostur á að sérhæfa sig í menntun og kennslu valinna greina, t.d. í gegnum verkefnavinnu og athugunarefni.

Vinnulag felur í sér lestur greina og bókakafla, greinargerðir, mat og rökræður um efnið, verkefnavinnu o.fl. 
Skráning

 

GSS075M Rýnt í rauntalnamengið   10e

Fengist er við atriði úr talnafræði og atriði úr stærðfræðigreiningu; reiknirit Evklíðs og keðjubrot, skilgreiningar og setningar um markgildi, samfelld föll og diffranleg föll, talnarunur og raðir, samleitni og nokkur samleitnipróf, sér í lagi eru athugaðar fáeinar Taylor-raðir til nálgunar á föllum. Fjallað er um helstu talnamengi, einkum samanburð á mengi ræðra talna og mengi rauntalna.Skilgreindur er greinarmunur algebrulegra talna og torræðra talna og sýnt fram á tilvist hinna síðarnefndu. Sérstaklega er fjallað um tölurnar e og pí og rökstutt að þær séu óræðar.
Skráning

GSS535M Fata- og nytjahlutahönnun    10e

Lögð er áhersla á sniðútfærslur og saumtækni í tengslum við hönnun á fatnaði og nytjahlutum. Nemendur vinna rannsóknamiðaða hugmynda- og heimildaöflun út frá eigin vali sem uppspretta nýrra hugmynda með áherslu á nýsköpun. Unnið er með fjölbreyttar textílaðferðir í þrívíðri túlkun. Lögð er áhersla á að nemendur sýni sjálfstæði og frumleika í nálgun sinni á viðfangsefnum. Þjálfuð eru fagleg vinnubrögðum í framsetningu verkefna.
Skráning

GSS118F Faggreinarnar leiklist og tónlist í grunnskóla    5e

Í þessu námskeiði er stefnt að því að nemendur auki sérþekkingu sína á kjörsviðinu Tónlist og leiklist með það að markmiði að auka færni sína sem kennarar á því sviði. Nemendur vinna fyrst og fremst með eigin styrkleika á sviði tónlistar og/eða leiklistar með það í huga að auka færni sína sem kennara í þessum greinum. Nemendur vinna sjálfstætt við öflun gagna við undirbúning kennslu og útfæra kennsluaðferðir í hagnýtum æfingum með samnemendum.
Skráning
 

NOK019F Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun  10e

Í námskeiðinu er fjallað um:
- áhrif upplýsingatækni á uppeldi, menntun og skólastarf
- námskrá og stefnumótun á sviði upplýsingatækni í skólastarfi 
- hugtök, kenningar og rannsóknir sem tengjast notkun upplýsingatækni í námi og kennslu
- innleiðingu tölva og upplýsingatækni í skólastarf (technology integration) 
- kennsluhætti, símenntun kennara, hugbúnað og stafrænt námsefni
- nemendur, færni þeirra og/eða læsi á upplýsingar, miðla, tölvur og tækni
- hlutdeild upplýsingatækni í lífi fólks innan og utan skóla
Skráning
 

NOK111F Starfstengd leiðsögn – leiðsagnarhlutverkið    10e

Tilgangur námskeiðisins er að auka hagnýta þekkingu nemenda á því hvað felst í starfstengdri leiðsögn, leiðsagnarhlutverkinu og leiðsagnaraðferðum og gera nemendur meðvitaðri um hvernig starfstengd leiðsögn getur eflt faglega starfshæfni einstaklinga og hópa, m.a. nemenda í vettvangsnámi, nýliða í kennslu, reyndra kennara og annars fagfólks. Í námskeiðinu er lögð áhersla á þjálfun í starfstengdri leiðsögn sem leið til aukinnar fagmennsku og hugað er að ábyrgð þess sem leiðsögnina veitir svo og stöðu þess sem hennar nýtur.
Skráning

GSS094M Leiklist og tónlist í skólastarfi – kenningar, markmið og leiðir   5e   

Viðfangsefni námskeiðsins eru tónlist og  leiklist í skólastarfi barna og unglinga. Skoðaðar verða kenningar um tónlist og leiklist í skólastarfi. Nálgun og aðferðir tónlistar og leiklistar í skólastarfi verða kannaðar bæði verklega og með lestri og umræðu. Leitast verður við að greina þau markmið, leiðir og viðfangsefni sem einkenna ólíkar aðferðir tónlistar og leiklistar í skólastarfi. Nemendur þjálfast í því að skapa og þróa eigin verkefni og námsáætlanir til notkunar í skólum.
Skráning

Uppeldis og menntunarfræðideild

MEN127F Fjölmenningarsamfélag og skóli: Hugmyndafræði og rannsóknir

Fjallað verður um rannsóknir á sviði fjölmenningarfræða á Íslandi og í öðrum löndum, fjölmenningu í sögulegu og alþjóðlegu samhengi, búferlaflutninga, stöðu minnihlutahópa og stöðu flóttafólks. Einnig verður fjallað um viðhorf og fordóma, svo og aðgerðir stjórnvalda, mannréttindi, jafnrétti og lýðræði. Þá verður rætt um uppeldi í fjölmenningarlegu samfélagi og rannsóknir á stöðu barna og unglinga sem málfarslegra, menningarlegra og trúarlegra minnihlutahópa. Verkefni eru vettvangstengd og nemendur kynnast eigindlegum rannsóknaraðferðum við söfnun gagna á vettvangi og úrvinnslu þeirra.

Skráning

MEN112F - Lífsleikni - sjálfið 5 e

Á þessu námskeiði er unnið fræðilegar undirstöður lífsleikni í heimspeki og sálfræði. Megináhersla er annars vegar á siðfræðilegar undirstöður greinarnnar og hins vegar á hlutverk og eðli tilfinninga (feelings) og geðshræringa eða geðhrifa (emotions). Einnig eru margvísleg sjálfshugtök tekin til gagnrýninnar skoðunar, s.s. sjálfálit, sjálfsmat, sjálfsvirðing og sjálfsmynd.
Námskeiðið tekur nokkuð mið af lífsleikni sem viðfangsefni í skólum, bæði sem kennslugrein og sem grundvallarnálgun, en er þó ekki bundið þeim vettvangi.
 

MEN502M - Persónuleg hæfni: Jákvæð sálfræði og velferð (well-being) 5e

Í námskeiðinu er unnið með þætti lífsleikni sem miða að aukinni persónulegri hæfni einstaklinga með fræðilegum og hagnýtum hætti. Þessar áherslur eru í samræmi við tilmæli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og ákvæður úr námskrám íslenskra leik-, grunn- og framhaldsskóla um að hlúa að andlegu heilbrigði, farsæld og sjálfsábyrgð.
Skráning 

 

MEN0A2F - Sjálfbærni og menntun II (lesnámskeið) 5e

Meginmarkmið þessa námskeiðs er að veita nemendum tækifæri til að beina sjónum að námi og kennslu sem stuðlar að sjálfbærni. Kennslutímar og umræður á milli þeirra byggjast á upplýstri rökræðu. Unnin verða þrjú verkefni og krafist virkrar þátttöku í umræðum, skipulagningu kennslustunda og því að leiða umræður.
Skráning 
 

Íþrótta-tómstunda- og þroskaþjálfadeild

TÓS505F Samstarf í skóla- og frístundastarfi  5e

Í þessu námsskeiði er sjónum beint að samstarfi á milli skóla og frístundastofnana. Frístundaheimili og félagsmiðstöðvar eru í mörgum sveitarfélögum rekin innan og í nánu samstarfi við grunn- og framhaldsskóla, og hér er miðað að því að efla þekkingu nemenda á þverfaglegu samstarfi ólíkra faghópa. Fjallað verður um áskoranir og tækifæri í slíku samstarfi, og gildi þess fyrir börn og ungmenni. Kenningum um ólíkar gerðir lærdómssamfélaga gerð skil, sem og rannsóknum á fagvitund og fagþróun ólíkra hópa. Námskeiðið hentar nemendum sem stefna að því að starfa með börnum og ungmennum , hvort heldur er í formlegu eða óformlegu uppeldis-og menntastarfi.

Skráning 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is