Stök einingabær námskeið vor 2014

Skólaárið 2013-2014 verða í boði  stök einingarbær námskeið við Menntavísindasvið HÍ. Þau námskeið  eru skipulögð með þarfir þeirra sem starfa á vettvangi í huga.
 
Ekki þarf að vera innritaður í nám við Háskóla Íslands til að geta skráð sig í þessi námskeið en þau eru samt sem áður metin til eininga hjá þeim sem ljúka tilskyldum árangri.
 
Á vegum Kennaradeildar  eru í boði námskeið við hæfi kennara á öllum skólastigum og einnig bjóðast stök námskeið í Uppeldis- og menntunarfræðideild og Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild.
 
Hvert námskeið kostar 43 500,- og umsóknarfrestur vegna námskeiða á vorönn  2014 er 10. desember 2013. Með því að smella á linkana "sjá nánar í kennsluskrá" er hægt að fá betri upplýsingar um námskeiðin.
 
Námskeiðin eru ætluð þeim sem lokið hafa BA, B.Ed eða BS gráðu á þeim fræðasviðum sem Menntavísindasvið menntar.
 
Upplýsingar veitir Edda Kjartansdóttir, sími 525 5983 og tölvupóstur eddakjar@hi.is.
 
Hér fyrir neðan eru upplýsingar um þau námskeið sem verða í boði á vorönn 2014.
 
Stundaskrá vikuleg kennsla á við um sum námskeið
Stundaskrá staðlotur á við um sum námskeið
 
NOK030F Fjölbreyttir kennsluhættir - einstaklingsmiðað nám
10 e námskeið
Á námskeiðinu verður fjallað um kennsluaðferðahugtakið og dæmi kynnt um fræðilega flokkun kennsluaðferða. Rannsóknum á kennsluaðferðum verða gerð sérstök skil, einkum innlendum rannsóknum. Þá verður fjallað um kennsluhætti og kennsluaðferðir sem tengjast hugmyndum um einstaklingsmiðað skólastarf (m.a. opinn skóla, sveigjanlega kennsluhætti, samvinnunám, samkennslu, lausnaleitarnám, heildstæð viðfangsefni, þemanám, samkomulagsnám, sagnalíkanið (The Story Model) og sjálfstæð, skapandi viðfangsefni). Efni námskeiðsins verður tengt þróun fjölbreyttra kennsluhátta hér á landi, og erlendis, og áhersla lögð á að þátttakendur ígrundi eigin reynslu af kennslu. Þátttakendum gefst tækifæri til að kynna sér einstaka kennsluhætti og kennsluaðferðir til nokkurrar hlítar og fjalla um það með fræðilegum hætti.
 
 
GSS460G Enskukennsla fyrir unga byrjendur
10 e námskeið
Fjallað verður um markmið, leiðir og aðferðir, einkum þær sem tengjast hlustun, töluðu máli, leikjum, söngvum og leikrænni tjáningu. Einnig verður fjallað um lestur, orðaforða, ritun og námsmat að því marki sem hæfir ungum byrjendum. Lögð verður áhersla á að viðfangsefni barna í tungumálanámi þurfi að vera í samræmi við þroska þeirra. Námskrá og námsefni verður skoðað og nemar fá þjálfun í skipulagningu kennslustunda og þemavinnu. Hugað verður að leiðum til að samþætta enskukennslu öðrum námsgreinum. Nemendur kynna sér námsefni og ítarefni, bæði í rituðu máli og á vef. 
Vinnulag 
Vinna í námskeiðinu krefst virkrar þátttöku. Mikið verður lagt upp úr lestri og úrvinnslu úr lesefni, umræðum, hópa- og einstaklingsvinnu og dæmikennslu.
 
 
 
NOK212F Leiðsögn – liður í starfsmenntun kennara
10e námskeið fyrir kennara með a.mk. tveggja ára starfsreynslu.
 
Tilgangur námskeiðsins er að nemendur öðlist heildarsýn yfir helstu stefnur og kenningar um starfstengda leiðsögn þar sem stefnt er að starfsmentun kennara, og hvernig þær hafa þróast á undanförum áratugum. Fjallað er um tengsl kenninganna við markmið leiðsagnar og aðferðir, og einnig við kenningar í menntunarfræðum. Nemendur skoða og greina eigin reynslu og hugmyndir um leiðsögn með hliðsjón af þessum kenningum. Kannaðar verða leiðir til að efla persónulegan styrk nýliða í kennarastarfi, þ.e. sjálfstraust þeirra, seiglu og faglega sjálfsvitund. Fjallað verður um félagslegar leiðir í leiðsögn, m.a. jafningjaleiðsögn og leiðsögn í hópum og starfssamfélögum, og hvernig aðstæður og menning eru samofin starfsnámi. Lögð er áhersla á “jafningjaleiðsögn” nemenda námskeiðsins þar sem þeir taka mið af eigin kennslureynslu og reynslu af leiðsögn. 
 
Kennt verður kl 13.20 – 17.00  dagana:
20. og 21. janúar
10. og 28. febrúar
3. og 4. apríl
9. maí – námsmat. 
 
 
 
GLF002M Námsefnisgerð og hugbúnaðarnotkun í stærðfræðikennslu: Forritið GeoGebra 
5e námskeið
 
Nemendur kynnast möguleikum sem hugbúnaðurinn GeoGebra býður upp á í stærðfræðikennslu í grunn-og framhaldsskólum. Farið verður í helstu tæknileg atriði forrits í fyrsta tímanum og nemendur fá tækifæri til að prófa sig áfram í vinnutímum. Kynnt verður það samfélag sem skapast hefur kringum GeoGebru á alþjóðavettvangi. Heimasíða forritsins verður skoðuð og það kennsluefni sem þar er að finna. Einnig verður rætt um námskrá grunnskóla og framhaldskóla, námsefni á þessum skólastigum og bent á möguleika á nýtingu forritsins. Fjallað verður stuttlega um ýmis hugtök tengd notkun upplýsingatækni við stærðfræðikennslu. Nemendur velja sér síðan viðfangsefni út frá eigin áhugasviði. 
 
Í námskeiðinu útbúa nemendur kennsluefni, kynna það og skila greinargerðum þar sem útskýrt er til hvers kennsluefnið er ætlað og hvernig það fellur að öðru námefni. Í þessu felst að gerð er grein fyrir:
 
-    hvaða stærðfræði er verið að kenna. 
-    hvaða stærðfræði skólanemandi þarf að kunna til að geta nýtt sér verkefnið.
-    hversu mikla kunnáttu í forriti skólanemandi þarf að hafa. 
-    tengingu við námskrá, skólaár eða áfanga eftir því sem við á.
-    hverjir eru kostir þess að nota hugbúnaðinn umfram hefðbundnar kennsluaðferðir.
 
Starfandi kennarar prófa kennsluefnið á nemendum sínum og gera grein fyrir því hvernig það reynist. Aðrir nemendur prófa kennsluefnið hver á  öðrum og þjálfast þannig í útskýringum og fá spurningar.

Námskeiðið verður kennt eftir hádegi á föstudögum kl. 12.30 - 15:40.

 

 
 
 
GSS703M Úr heimi rauntalna 
5 e
Rifjuð eru upp atriði úr stærðfræðigreiningu, skilgreiningar á markgildi, samfelldum og diffranlegum föllum. Fjallað er um helstu talnamengi, þau borin saman, en einkum fjallað um mismun kerfis ræðra talna og rauntalna. Fengist er við talnarunur og raðir, samleitni og nokkur samleitnipróf. Þá er fjallað um Taylor-raðir til nálgunar á föllum. Af sviði talnafræði er fjallað um algoritma Evklíðs og tengsl við keðjubrot. Skilgreindar eru algebrulegar tölur og fjallað um tilvist torræðra talna. Þá er sannað að tölurnar e og  séu óræðar
 
 
GSS456G Leiklist og tónlist á vettvangi I
 
10 e námskeið (þar af 6 vettvangseiningar) kennt á vorönn 2014
 
Á námskeiðinu er áhersla lögð á að kynna og þjálfa nemendur í að vinna sjálfstætt og faglega með leiklist eða tónlist í kennslu á vettvangi.  Nemendur kynnast fjölbreyttum kennsluháttum og kennsluleiðum fyrir tónmennta- og leiklistarkennslu. Nemendur læra að beyta aðferðum leiklistar og tónlistar þegar nálgast á viðfangsefni og fá innsýn inn í hvernig tengja má þær við aðrar greinar. Fjallað verður um hugmyndir um samþættingu listgreina við aðrar námsgreinar grunnskólans, um hugmyndafræðina sem býr að baki fjölbreyttum og skapandi kennsluaðferðum og um skipulagningu á kennslu í blönduðum nemendahópum í tengslum við tónmennta- og leiklistarkennslu. Námskeiðið tengist vettvangsnámi á misserinu sem felst í undirbúningi og kennslu sem byggist á ofangreindum hugmyndum og uppgjöri og samantekt að vettvangsnámi loknu.
 
 
 
 
GSS 419G Frá hugmynd til sýningar 
 
10 e námskeið kennt á vorönn 2014
 
Á námskeiðinu er fjallað um leiklist sem listform, fræðilegan bakgrunn sýninga sem eru unnar út frá hugmyndum þátttakenda og um gildi þátttöku barna og ungmenna í leiksýningum. Athugun á því hvernig þessu er háttað á vettvangi. Undirstöðuatriði í gerð leiksýninga sem byggja á námsefni, frásögnum, persónusköpun eða hugmynd þar sem megináherslan er alltaf á að hugmyndir þátttakenda njóti sín. Möguleikar á námsmati. Leiðir til að þjálfa grunnskólanema í að tjá sig áheyrilega.
 
 
 
KEN213F Námskrá og skólaþróun í framhaldsskólum
Í námskeiðinu er kennt um tilhögun og eðli námskráa og þróunarstarfs í skólum, með áherslu á námskrá og skólaþróun í heimaskólum í vettvangsnámi. Áhersla er á að nemendur þjálfist í hagnýtum vinnubrögðum með verkefnum sem unnin eru með því að nota gögn í heimaskólunum. Námskeiðið er í kjarna náms í Kennslufræði framhaldsskóla en hentar einnig starfandi framhaldsskólakennurum.
 
Nánar til tekið er hlutverk námskeiðsins að fást við samhengi menntastefnu, aðalnámskrár, skólanámskráa og skólaþróunar í framhaldsskólum. Í námskeiðinu er rýnt í menntastefnu eins og hún er á hverjum tíma og aðalnámskrár sem gerðar hafa verið í samræmi við hana. Skoðuð eru gögn um framhaldsskóla en einnig er horft til samhengis skólakerfisins í heild. Nemendur fylgjast með og eftir atvikum taka þátt í skólanámskrárgerð í framhaldsskólanum þar sem þeir eru í vettvangsnámi (eða starfa í sem kennarar), bæði almennri skólanámskrá og í sinni námsgrein.
 
Vinnulag er byggt á viðfangsefnum sem nemendur nálgast sem raunhæf tilvik. Viðfangsefnum í námskeiðinu er ætlað að þjálfa fagmannlegt verklag við að taka þátt í mótun menntastefnu í framhaldsskólum á Íslandi. Nemendur koma með ólíka þekkingu og færni inn í námskeiðið og mikilvægt er að nýta þá þekkingu sem þeir búa yfir við lausn viðfangsefnanna. Jafnframt er nemendum ætlað að bæta við sig fræðilegri þekkingu sem nýtist þeim við lausn viðfangsefna skólastarfs. Mikilvægt er að kennarar og nemendur námskeiðsins hafi víðan sjóndeildarhring og kynni sér margvíslegar kenningar sem eru ofarlega á baugi og meti gagnsemi þeirra í hverju tilviki, auk þess sem sígild hugtök og kenningar um námskrá, skólaþróun og menntastefnu eru meðal viðfangsefna námskeiðsins.
 
 
GSS208F; Náttúruvísindi á 21. öld
10 e námskeið  (kennarar af vettvangi geta valið að taka færri einingar)
Nýtt og spennandi námskeið þar sem kynnst verður nýjustu tækni og vísindum með tengingu við stofnanir og fyrirtæki á Íslandi.
Námskeiðið er ætlað kennurum á unglingastigi í grunnskólum og kennurum í framhaldsskólum.
Hver lota stendur yfir í 3 vikur. Farið verður í valin þverfagleg viðfangsefni úr vísindastarfi með áherslu á framtíðina. Viðfangsefni tengjast námi og kennslu í grunn- og framhaldsskólum og eiga að þjálfa kennara í að taka við spurningum frá nemendum um nýjustu tækni og vísindi.
Námskeiðið byggist á lestri greina í fag- og vísindatímaritum um nýjungar í náttúruvísindum, kynningum fluttum af vísindamönnum og samnemendum, og vinnu verkefna. Einnig verða heimsóttir staðir þar sem kynnt verða verkefni á Íslandi, bæði rafrænt og í raun.
Nemi velur lokaverkefni, bæði form og inntak, í samráði við umsjónarkennara.
 
Námskeiðinu er skipt í 8 sjálfstæða hluta þar sem mismunandi viðfangsefni verða tekin fyrir. Hver hluti eru 2 einingar.
Starfandi kennurum er boðið upp á að taka eins fáa eða eins marga hluta og þeir vilja, allt frá einum upp í 8.
Kennt er á mánudags- og þriðjudagseftirmiðdögum kl.13:30 - 16:30 í Stakkahlíð.
 
Efni (drög) Dagsetningar
Upphafsfundur Mánudagur 6. janúar. Allir mæta.
Nanótækni Mánudagana 13. janúar, 20. janúar og 27. janúar
Líftækni Þriðjudagana 14. janúar, 21. janúar og 28. janúar
Hafið Mánudagana 3. febrúar, 10. febrúar og 17. febrúar
Loftslagsverkfræði Þriðjudagana 4. febrúar, 11. febrúar og 18. febrúar
Vistheimt Mánudagana 24. febrúar, 3. mars og 10. mars
Rusl í framtíðinni Þriðjudagana 25. febrúar, 4. mars og 11. mars
Orkuframleiðsla framtíðarinnar Mánudagana 17. mars, 24. mars og 31. mars
Sjálfvalið efni Þriðjudagana 18. mars, 25. mars og 1. apríl
Lokaverkefni Mánudagur 7. apríl. Allir mæta.
Kynning á lokaverkefni Mánudagur 5. maí. Allir mæta.
Nánari upplýsingar um efnin er hægt að finna hér:
Hægt er að velja sér nokkur viðfangsefni eða taka öll.
 
 
SKF017F  Hegðun og tilfinningar barna: Áskoranir og úrræði 
 
10 e námskeið. Kennt í staðlotum og svo fjarnám á milli.
 
Að gefa þátttakendum kost á að kynnast völdum þáttum, bæði fræðilegum og hagnýtum, sem auðvelda almennum kennurum og sérkennurum að skilja, meta og bregðast við þörfum nemenda sem eiga við hegðunar- og/eða tilfinningavanda að etja. Fjallað verður um aðferðir við skimun og mat, áhrifaþætti og algengi mismunandi hegðunar- og/eða tilfinningalegra erfiðleika, s.s. mótþróa, þunglyndis og kvíða. Einnig verður fjallað um hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika nemenda með athyglisbrest með ofvirkni (ADHD) eða röskun á einhverfurófinu. Sérstök áhersla er á að auka færni þátttakenda í að sníða skólastarf og skólasamfélag betur að þörfum nemenda með hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika og veita kennurum og skólastjórnendum ráð um hvernig unnt er að gera slíkt og fjarlægja hindranir sem útiloka og einangra nemendur með slíkan vanda.
 
Nemendur hafi aflað sér grunnþekkingar á helstu hugtökum og sjónarhornum þroskasálfræði eða félagsvísinda á námsferli sínum áður en þeir sækja námskeiðið.  Reynsla af vinnu með börnum eða ungmennum æskileg.
 
 
 
MEN225F Heimspeki með börnum
10e námskeið 
Ætlað grunn- og framhaldsskólakennurum
 
Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning á markmiðum og tilgangi þess að stunda heimspekilega rökræðu með börnum og fullorðnum. Að þeir hafi á valdi sínu hugmyndafræði Matthews Lipman um rannsóknarsamfélag og uppruna þeirrar hugmyndafræði í heimspeki bandarísku pragmatistanna Charles S. Peirce, Williams James, og Johns Dewey. Einnig að nemendur geti leitt heimspekilegar rökræður með hópi fólks með þeirri tækni sem hugmyndafræði barnaheimspekinnar felur í sér.
Á námskeiðinu verður fjallað um rökræðuna sem kennsluaðferð og hugmyndafræði Matthews Lipman og annarra fræðimanna um tilgang og markmið þess að stunda heimspekilega rökræðu með börnum. Fjallað verður um tengsl íslenskra námskráa á mismunandi skólastigum við meginmarkmið heimspekilegrar samræðu, s.s. sjálfstæða hugsun, gagnrýna hugsun, skapandi hugsun, fordómaleysi, sjálfsþekkingu og undirbúning fyrir þátttöku í í lýðræðissamfélagi. Fjallað verður ítarlega um þessi hugtök eins og þau birtast í hugmyndafræði barnaheimspekinnar.
 
 
SKF001F Líkamlega fötluð og langveik börn
10e námskeið 
 
Í þessu námskeið er fjallað er um nemendur sem eru hreyfihamlaðir, blindir eða heyrnarlausir og einnig um helstu hópa langveikra barna.  Farið í helstu orsakir, einkenni, greiningu og íhlutun fyrir hvern hóp fyrir sig. Sérstaklega verður rætt um skólagöngu barnanna, þarfir þeirra í skólanum og hvernig hægt er að koma til móts við þær. Rætt verður hvernig hægt er að aðstoða börnin til sjálfshjálpar og sjálfstæðis.

Námskeiðið er með fjarnámssniði. Kennt verður í tveimur staðbundnum lotum með fjarnámi á milli. Í staðbundnu lotunum eru fyrirlestrar, umræður og sýnikennsla en lestur, netumræður og  verkefnavinna í fjarnáminu

 

Sjá nánar í kennsluskrá

Skráning

 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is