Stök einingabær námskeið vorönn 2016

Á vorönn 2016 verða í boði  stök einingarbær námskeið við Menntavísindasvið HÍ. Þau námskeið  eru eftir megni skipulögð með þarfir þeirra sem starfa á vettvangi í huga.
 
Ekki þarf að vera innritaður í nám við Háskóla Íslands til að geta skráð sig í þessi námskeið en þau eru samt sem áður metin til eininga hjá þeim sem ljúka tilskyldum árangri.
 
Á vegum Kennaradeildar  eru í boði námskeið við hæfi kennara á öllum skólastigum og einnig bjóðast stök námskeið í Uppeldis- og menntunarfræðideild.  
 
Hvert námskeið kostar 55 000,- nema annað sé tekið fram  og umsóknarfrestur vegna námskeiða á vorönn 2016  er 4. desember  2015. Með því að smella á linkana "nánar hér" er hægt að fá betri upplýsingar um námskeiðin.
 
Námskeiðin eru ætluð þeim sem lokið hafa BA, B.Ed eða BS gráðu á þeim fræðasviðum sem Menntavísindasvið menntar.
 
Upplýsingar veitir Edda Kjartansdóttir, tölvupóstur sh@hi.is nema annað sé tekið fram.
 
 
Hér fyrir neðan eru upplýsingar um þau námskeið sem verða í boði á vorönn 2016.
 
 
GSS091M Landnám og sköpun þjóðar  5e
 
Landnám Íslands og uppruni þjóðarinnar hafa verið áleitin viðfangsefni um langan aldur og á námskeiðinu verður spurt hvers vegna svo er. Kannaðar verða ritheimildir um landnámið og gildi þeirra, athugað hvað fornleifarannsóknir hafa fram að færa  svo og líffræðilegar og mannfræðilegar greiningar. Nemendur kynna sér kenningar um keltneska landnámsmenn, víkinga og hreinan kynstofn og kanna úr hvaða jarðvegi þessar hugmyndir eru sprottnar. Gætt er að hvernig fjallað er um þessi málefni í kennslubókum á ýmsum tímum og þær settar í samhengi kennslu, námskráa, hugmyndastrauma og rannsókna á hverjum tíma. Kenningar um uppruna Íslendinga eru bornar saman við skyldar hugmyndir í öðrum löndum um uppruna þjóða og þjóðríkja í ljósi trúarviðhorfa, goðsagna og sameiginlegra minninga. Hugað er að siglingum og útrás til ókannaðra landa á mismunandi tímum.
 
Námskeiðið byggist á lestri á sameiginlegu lesefni og umræðu um það, sjálfstæðum athugunum á völdum þáttum námskeiðsins, heimsóknum á söfn og fyrirlestrum kennara.
 
 
MEN208F Íslenska sem annað mál 10e
Fjallað verður um tungumál í samfélagi manna, einkum íslensku sem annað mál. Vikið verður að máltöku og máluppeldi. Veruleg áhersla verður lögð á tvítyngi, fjöltyngi og muninn á því að öðlast færni í móðurmáli og öðru (erlendu) máli. Vísað verður í nýjar og nýlegar rannsóknir á sviðum tengdum máltöku annars máls og tvítyngi. Enn fremur verður lögð áhersla á tengsl við vettvang eins og kostur er.
 
 
 
MEN224F Kennslufræði íslensku sem annars máls 10e
 
Á námskeiðinu fer fram gagnrýnin umræða um kenningar og rannsóknir á námi og kennslu tvítyngdra nemenda. Fjallað verður um markmið og leiðir sem stuðla að því að nemendur nái tökum á íslensku sem tæki til almennra samskipta og náms. Þá verður fjallað um mismunandi þarfir og bakgrunn nemenda og þá sérstöðu sem kennsla í íslensku sem öðru máli hefur. Kennaranemar fá þjálfun í að skipuleggja kennslu og námsmat.
Vinnulag 
Vinna í námskeiðinu krefst virkrar þátttöku og mikið verður lagt upp úr lestri nemenda, umræðum og hópa- eða einstaklingsvinnu og verkefnum sem lýkur með kynningu. Þá verða fluttir inngangsfyrirlestrar um afmörkuð efni.
 
 
NOK074F Bókmenntir og grunnþættir  5e
Lesnir verða fjölbreyttir bókmenntatextar sem vel eru til þess fallnir að opna umræðu um grunnþætti menntunar eins og þeir eru skilgreindir í Aðalnámskrá grunnskóla (2013): Læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði,  velferð og sköpun. Lesefni verður breytilegt en valið út frá þremur meginþemum sem tengjast grunnþáttunum.  Valið skal lesefni sem veitir jafnframt almenna menntun í bókmenntum, tungumáli og tjáningu.
 
MEN601M Lífsleikni - persónuleg hæfni 5e
Fræðilegur rammi námskeiðsins byggir á jákvæðri sálfræði. Fjallað verður um þætti eins og hugarfar,  tilfinningar, farsæld, vellíðan, sjálfstjórn, merkingu, markmiðasetningu og núvitund (mindfulness).
Sérstök áhersla er lögð á að kynna mindfulness og markþjálfun sem hagnýtar aðferðir til stunda sjálfsskoðun. Aðferðir sem jafnframt efla persónulega hæfni, ekki síst tilfinningagreind, sjálfsþekkingu, núvitund og samskiptahæfni.
Námskeiðið byggir á vinnustofum með áherslu á virka þátttöku og umræður.
 
GSS085M - Nám og náttúruvísindi á 21. öld 5e
 
Spennandi námskeið um ný vísindi fyrir starfandi náttúrufræðikennara. Tekist verður á við þverfagleg viðfangsefni náttúruvísinda í dag og í framtíðinni með áherslu á tengsl við starfandi vísindamenn og fyrirtæki og stofnanir. Námskeiðið er hagnýtt fyrir starfandi kennara þar sem kennsluhugmyndir verða útfærðar og tekið verður mið af núverandi aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla. 
Stefnt er að vikulegum tímum á föstudagseftirmiðdögum. 
Námskeiðið er annars vegar kennt í húsnæði Menntavísindasvið HÍ við Stakkahlíð og hins vegar hjá ýmsum fyrirtækjum/stofnunum innan höfuðborgarsvæðisins.
Umsjónarkennari: Allyson Macdonald, prófessor, allyson@hi.is
Tengiliður og nánari upplýsingar: Birgir U. Ásgeirsson, verkefnisstjóri, birgira@hi
 
 
GSS088M Hönnun námsefnis og stafræn miðlun 5e
Á námskeiðinu verður unnið að hugmyndum, miðlun og efnisgerð á opinn og skapandi hátt. Nemendur og kennarar ræða leiðir til að búa til og þróa margbreytilegt efni til nota í námi og kennslu. Farið verður yfir undirstöðuatriði námsefnisgerðar, þarfagreiningu og hönnunarferli með áherslu á efnisöflun, efnisskipan, notendaskil, gagnvirkni, yfirbragð og nýja miðla, meðal annars í ljósi fræðikenninga um nám og kennslu. Sérstakri athygli verður beint að efnisbyggingu, samspili miðla, yfirbragði efnis, gagnvirkni og notendaskilum. Farið verður yfir helstu þætti miðlunar og bent á úrval verkfæra til hljóðvinnslu, myndvinnslu og miðlunar en ekki lögð áhersla á verkfærakennslu. Auk hefðbundinna aðferða við hönnun námsefnis og gagnvirkra námsgagna verður bent á möguleika fólgna í samvinnu og lausnaleit (prójekt-vinnu) við efnisgerð og farið yfir kosti fólgna í opnu menntaefni og endurblöndun efnis. Nemendur eiga val um viðfangsefni í efnisgerð, efnistök og vinnulag. Nemendur leggja drög að eða móta námsefni eða sagnaefni til nota í uppeldis- eða skólastarfi, oft með stærri verk í huga. Með efnisgerð og áætlunum á námskeiðinu má leggja grunn að lokaverkefnum í meistaranámi. Einnig má þegar svo ber undir leggja drög að þróunarstarfi, samstarfi og styrkumsóknum.
 
MEN225F Gagnrýnin hugsun og heimspekileg samræða 10e
Á námskeiðinu verður fjallað um rökræðuna sem kennsluaðferð og hugmyndafræði Matthews Lipman og annarra fræðimanna um tilgang og markmið þess að stunda heimspekilega rökræðu með börnum. Fjallað verður um tengsl íslenskra námskráa á mismunandi skólastigum við meginmarkmið heimspekilegrar samræðu, s.s. sjálfstæða hugsun, gagnrýna hugsun, skapandi hugsun, fordómaleysi, sjálfsþekkingu og undirbúning fyrir þátttöku í í lýðræðissamfélagi. Fjallað verður ítarlega um þessi hugtök eins og þau birtast í hugmyndafræði barnaheimspekinnar.
 
 
NOK212F Leiðsögn – liður í starfsmenntun kennara   10e 
 
 
Tilgangur námskeiðsins er að nemendur öðlist heildarsýn yfir helstu stefnur og kenningar um starfstengda leiðsögn þar sem stefnt er að starfsmentun kennara, og hvernig þær hafa þróast á undanförum áratugum. Fjallað er um tengsl kenninganna við markmið leiðsagnar og aðferðir, og einnig við kenningar í menntunarfræðum. Nemendur skoða og greina eigin reynslu og hugmyndir um leiðsögn með hliðsjón af þessum kenningum. Kannaðar verða leiðir til að efla persónulegan styrk nýliða í kennarastarfi, þ.e. sjálfstraust þeirra, seiglu og faglega sjálfsvitund. Fjallað verður um félagslegar leiðir í leiðsögn, m.a. jafningjaleiðsögn og leiðsögn í hópum og starfssamfélögum, og hvernig aðstæður og menning eru samofin starfsnámi. Lögð er áhersla á “jafningjaleiðsögn” nemenda námskeiðsins þar sem þeir taka mið af eigin kennslureynslu og reynslu af leiðsögn.
NOK061M Nám og kennsla á Netinu  10e
Fjallað er um miðlun, framsetningu og skipulag námsefnis og námsumhverfis á Neti, í fræðilegu samhengi.  Einnig er fjallað um hugmyndir og kenningar sem tengja má netnámi og uppbyggingu námssamfélaga. Áhersla er  á félags- og menningarlega sýn (socio-cultural approach), dreifða vitsmuni (distributed cognition) og nám sem  tengja saman þekkingu og að tengjast hvert öðru (connectivism) með aðstoð netmiðilsins. Áhersla er á  gerð og vinnu með opin námsgögn og opinn hugbúnað sem hentar skólastarfi. Þá er athygli beint að möguleikum og vandamálum tengdum netnotkun í lífi og skólastarfi og úrlausnum þeirra.
Leitast verður við að nota kennsluaðferðir sem byggja á veftækni og nýjum netverkfærum og þjálfa þannig nemendur til vinnu í slíku umhverfi.
 
GSS072M Hönnunarsaga í víðu samhengi   5e 
 
Fjallað verður um sögu hönnunar frá Egyptum til vorra daga með áherslu á  fatnað og nytjahluti. Lögð er áhersla á íslenska fata- og textílsögu og kynntir íslenskir kven- og karlmannabúningar. Farið verður sérstaklega í víðtækt hlutverk hönnunar í tengslum við menningu og samfélag í alþjóðlegu samhengi. Skoðuð verður sérstaklega þróun fatahönnunar á Íslandi. Námið er fólgið í fyrirlestrum, skoðunarferðum, viðtölum og bók- og verklegum rannsóknarverkefnum.
 
NOK201F Kennsla í margbreytilegum nemendahópi  10e
 
Fjallað verður um mismunandi vinnubrögð í skóla án aðgreiningar, gerð einstaklingsnámskráa og áætlana þar sem tekið er mið af þörfum allra nemenda. Kynntar verða ýmsar aðferðir við öflun upplýsinga og mat á þörfum, stöðu og árangri nemenda. Einnig verða kynntir kennsluhættir og kennsluaðferðir sem hafa reynst vel í fjölbreyttum nemendahópum. Fjallað verður um samstarf við foreldra og aðrar starfsstéttir er starfa við eða tengjast skólastarfi.
 
NOK065M Gildi list- og verkmenntunar - rýnt í rannsóknir og fræði   10e 
 
Nemendur kynnast hugmyndasögu list-og verkmenntunar í stórum dráttum. Fjallað verður um gildi list- og verkgreina með skírskotun í kenningar og rannsóknir. Nemendur eru þjálfaðir í að geta rökstutt eigin afstöðu til list- og verkmenntunar með tilvísunum í rannsóknir og kenningar og vegið og metið viðteknar hugmyndir um list-og verkgreinar í menntun í fræðilegu samhengi og á gagnrýninn hátt.
 
NOK042F Fjarnám og kennsla  10e 
 
Á námskeiðinu verða hugtökin fjarnám- og fjarkennsla og tengd hugtök s.s. blandað nám, dreifnám og netnám skoðuð og skilgreind. Skoðaðar verða hugmyndir og kenningar sem tengjast sviðinu og hvernig þær hafa þróast frá áherslu á sjálfstætt nám (independent study) á tímum bréfaskóla til áherslu á samskipti og uppbyggingu sameiginlegrar þekkingar á tímum netvæðingar og alþjóðahyggju. Fjallað verður um erlendar og innlendar rannsóknir á fjarnámi og -kennslu. Athygli er beint að stöðu fjarnáms á mismunandi skólastigum, fjarnemum og þörfum þeirra, kennsluháttum með nýtingu mismunandi miðla og hönnun fjarnámsáfanga m.t.t. alþjóðlegra viðmiða og gæðastaðla.
 
GSS074M Útikennsla og græn nytjahönnun   5e
 
Tekist verður á við kennslu- og hugmyndafræði "Útikennslu og grænnar nytjahönnunar". Nemendur læra um sjálfbæra þróun í hönnun, skógarvistfræði og skógarnytjar. Farið verður í vettvangsferðir þar sem nemendur kynnast þessari kennsluaðferð af eigin raun. Hugað verður að eflingu tengsla nemenda í verkgreinum við íslenska náttúru og hvernig hægt er að hanna fyrir umhverfið, án þess að valda því skaða. Þróaðir verða nytjahlutir úr íslenskum viðarafurðum og frumgerðir smíðaðar. Stuðst verður við tálguaðferðir sem notaðar hafa verið á norðurlöndunum um árhundruðin. Nemendur eru þjálfaðir að tálga úr blautum viði og að tileinka sér rétt handbrögð og umgengni við bitverkfæri.
 

GSS076M Rannsóknir á sviði stærðfræðimenntunar – stærðfræðikennarinn  5e
 
Námskeiðið miðar að því að nemendur öðlist þekkingu á fræðasviðinu stærðfræðimenntun og hæfni í að lesa, ræða og skrifa á gagnrýninn hátt um rannsóknir á sviðinu. Þeir öðlist leikni í að gera eigin rannsóknir á stærðfræðinámi og -kennslu og greina þær í ljósi rannsókna á sviðinu.  Lesið verður um kenningar um stærðfræðinám og -kennslu og rannsóknir sem gerðar hafa verið á sviði stærðfræðimenntunar og skoðað hvernig viðhorf fræðimanna til stærðfræðináms hafa þróast, undanfarna áratugi. Kannað verður hvaða áhrif breyttar námsaðstæður á 21. öld hafa á hvernig nemendur tileinka sér stærðfræði og hlutverk kennarans sérstaklega skoðað í því samhengi.
 
Skráning 
   

GSS213F Menntun til sjálfbærni – hæfni í heimi breytinga   5 e

 
Fjallað verður um hugtakið sjálfbær þróun og meginhugmyndir alþjóðlegra sáttmála um sjálfbærni. Tekin verða dæmi af ýmsum vandamálum er tengjast umhverfi og náttúru, s.s. loftslagsmálum, tegundafækkun, jarðvegseyðingu og mengun. Lögð verður áhersla á að greina vandamál úr umhverfi nemenda með áherslu á að finna mögulegar lausnir. Fjallað verður um hlutverk kennara í að vinna með ágreiningsmál og hvernig þeir geta kennt börnum að greina vanda, meta upplýsingar og setja fram hugsanlegar lausnir. Þátttakendur lesi og noti rannsóknir á sjálfbærnimenntun. Einnig munu þátttakendur skoða eigin viðhorf til sjálfbærrar þróunar, gildi sín og meta eigin hegðun.
 
Skráning
 
  
NOK026F Tengsl málþroska og læsis  10e 

Fjallað verður ítarlega um læsisþróun og undirstöðu hennar í lestrarnámi. Einnig um  forsendur lestrarnáms, með sérstakri áherslu á rannsóknir á þroska málvitundar (metalinguistic awareness) og hvernig mismunandi undirþættir hennar tengjast þróun umskráningar og lesskilnings og erfiðleikum því tengdu. Lögð verður áhersla á þátt hljóðkerfisvitundar og orðhlutagreiningar á þróun lesturs og stafsetningar. Einnig verður fjallað um mismunandi leiðir til þess að örva málvitund barna og hvernig sú örvun leggur grunn að lestrarnámi þeirra. Skoðaðar verða íslenskar og erlendar rannsóknir hjá byrjendum og lengra komnum sem varpa ljósi á læsi, tengsl þess og þróun við lestur.Kennsla á vettvangi verður skoðuð með tilliti til rannsókna,fræðilegra forsenda í lestranámi og viðmiða í aðalnámskrám leik-og grunnskóla. Þáttur erfða og félagslegs umhverfis í læsi verður ræddur, sem og annarra mögulegra áhrifaþátta.
Nánar hér
 
NOK007F Námskrárfræði: Hvað á að kenna og meta og hvers vegna?   10e
 
Á námskeiðinu er fjallað um námskrárhugtakið (ýmsar myndir þess), hugmyndastefnur innan námskrárfræða, kenningar, hugtök og fræðileg líkön í námskrárgerð. Sérstök áhersla er einnig lögð á samhengi milli námskrárþróunar annars vegar og mats í skólastarfi hins vegar. Fjallað er um eðli og framsetningu námsmarkmiða og samhengi milli markmiða, hæfniviðmiða (learning outcomes) og mats. Sjónum er beint að námskrárgerð (þ.m.t. skólanámskrárgerð) og skólaþróun. Efni námskeiðsins er tengt þróun námskráa og námsmats hér á landi, í fyrsta lagi þróun hinnar opinberu stefnu eins og hún birtist á hverjum tíma, í öðru lagi framkvæmd eins og hún birtist í skólanámskrám og áætlunum skóla og þriðja lagi raunverulegri reynslu í samskiptum nemenda og kennara. Álitamál sem tengjast námskrárþróun og námsmati má líta á sem rauðan þráð í námskeiðinu.
Skráning
 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is