Starfshættir í grunnskólum

Opnaður var aðgangur að gögnum rannsóknarinnar fyrir fræðimenn og háskólanema þann 9. september 2016. Gagnasafnið er nú í höndum Menntavísindastofnunar. Unnt er að sækja þangað um aðgang að vettvangslýsingum, afrituðum viðtölum og niðurstöðum spurningakannana. Nálgast má umsóknareyðublað og tæki rannsóknarinnar, s.s. form fyrir vettvangslýsingar, viðtalsramma fyrir viðtöl, spurningalista o.fl., á vef stofnunarinnar, sjá: http://menntavisindastofnun.hi.is/gogn_fraedimanna_menntavisindasvids

Ritrýnd bók um meginniðurstöður rannsóknarinnar kom út á vegum Háskólaútgáfunnar í desember 2014 - Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar. Hún hefur selst í hátt í 500 eintökum. Hér er hægt að nálgast bókina.

Kaflaheiti bókarinnar: I. Inngangur, II. Framkvæmd rannsóknar, III. Viðhorf nemenda, foreldra og starfsmanna skóla, IV. Skólabyggingar og námsumhverfi, V. Stjórnun og skipulag, VI. Kennsluhættir, VII. Nám, þátttaka og samskipti nemenda, VIII. Foreldrasamstarf, IX. Tengsl skóla og grenndarsamfélags -  útikennsla, X. List- og verkgreinar, XI. Upplýsingatækni í skólastarfi, XII. Starfshættir í grunnskólum – Meginniðurstöður og umræða.

Ráðstefna í tilefni af útgáfu bókarinnar var haldin 6. febrúar 2015 í Ingunnarskóla, Reykjavík. Yfir 300 manns sóttu ráðstefnuna. 

UPPTÖKUR af ráðstefnunni eru á:   https://vimeo.com/album/3269188

Aðstandendur rannsóknarinnar eru enn að vinna úr niðurstöðum hennar og halda erindi og birta greinar á grunni gagnanna sem aflað var. Samstarf er í gangi við erlenda aðila um afmarkaða þætti, m.a. í Færeyjum, Þýskalandi, á Bretlandi og Spáni.

Lýsing á rannsókninni:

Rannsóknarverkefnið Starfshættir í grunnskólum var þverfaglegt rannsóknarverkefni styrkt af Rannsóknarsjóði (Rannís), Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands, Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri, Menntavísindasviði HÍ, Nýsköpunarsjóði og Vinnumálastofnun.

Meginmarkmið rannsóknarinnar var að veita yfirsýn yfir núverandi starfshætti í íslenskum grunnskólum. 

Að rannsókninni stóð hópur samstarfsaðila, alls um 50 manns. Þeir voru 20 fræðimenn af Menntavísindasviði Háskóla Íslands og frá kennaradeild Háskólans á Akureyri. Auk þeirra voru í hópnum starfsmenn frá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, Skóladeild Akureyrarbæjar, Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar, sérfræðingar frá Arkitektastofunni Arkís og hugbúnaðarfyrirtækinu Mentor, ásamt 15 meistara- og doktorsnemum. Í verkefnisstjórn sátu sjö manns, þau Anna Kristín Sigurðardóttir, formaður, Börkur Hansen, Ingvar Sigurgeirsson, Kristín Jónsdóttir og Rúnar Sigþórsson. Verkefnisstjóri var Gerður G. Óskarsdóttir.

 Líkan sem lagt var til grundvallar rannsókninni hvílir á sex stoðum sem skarast innbyrðis. Þær eru: Skipulagsstoð (skipulag og stjórnun skólastarfs), námsumhverfisstoð (námsumhverfi innan skólastofunnar og í skólanum almennt), viðhorfastoð (viðhorf nemenda, kennara, stjórnenda og foreldra), kennarastoð (hlutverk kennara og kennsluhættir), nemendastoð (viðfangsefni og nám nemenda), foreldra- og samfélagsstoð (þátttaka foreldra í skólastarfi og tengsl skóla við grenndarsamfélagið).

Fyrirliggjandi gögn: Gagna var aflað í 20 grunnskólum í fjórum sveitarfélögum með vettvangsathugunum, einstaklings- og rýnihópaviðtölum, spurningakönnunum, starfendarannsókn og könnun fyrirliggjandi gagna. Í gagnasafninu eru yfir 500 vettvangslýsingar (um 460 klst.) og yfir 150 skrá viðtöl, auk niðurstaðna spurningakannana til yfir 800 starfsmanna (fjórir spurningalistar), rúmlega 2.000 nemenda og yfir 5.000 foreldra.

Niðurstöður mynda gagnasafn, varðveitt á Menntavísindastofnun, sem opið er öðrum fræðimönnum og háskólanemum til rannsókna á einstökum þáttum starfshátta grunnskóla, samanburðarrannsókna og langtímarannsókna á þróun starfshátta í grunnskólum (sjá hér ofar).

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is