Rannsóknir

ESPAD (European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs)

- Ábyrgð Ársæll Arnarsson

Árið 1995 tóku 26 lönd þátt í fyrstu umferð samanburðarrannsóknarinnar European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs (ESPAD). Frá þeim tíma hefur ESPAD rannsóknin farið fram á fjögurra ára fresti með þátttöku sívaxandi fjölda Evrópulanda. Sjötta umferð ESPAD fór fram árið 2015 og voru þátttökulöndin þá 35 með 96.043 þátttakendum. Alls hafa um 600.000 nemendur svarað könnuninni frá upphafi. Þessi skýrsla markar því tuttugu ára afmæli verkefnisins (1995-2015) og hefur Ísland tekið þátt frá upphafi. Á Íslandi er ESPAD rannsóknin unnin í samvinnu Rannsóknaseturs forvarna við Háskólann á Akureyri og Rannsóknarstofu í tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands.

Skýrsla 2017 - Vímuefnaneysla íslenskra unglinga í alþjóðlegum samanburði 1995—2015

 

HBSC (Health and behaviour in school-aged children)

- Ábyrgð Ársæll Arnarsson

•  Fjölþjóðleg rannsókn þar sem 11, 13 og 15 ára börn eru spurð um ýmsa þætti varðandi heilsu, líðan og félagslegar aðstæður

•  Studd af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO)

•  44 lönd í Evrópu og Norður-Ameríku eru með í verkefninu

•   Í síðustu fyrirlögn sem fór fram veturinn 2013-2014 náði fjöldi svarenda um 220 þúsundum

Sjá nánar á www.hbsc.is og www.hbsc.org

 

                                          --- 0 ---

 

Samþætting á skóla- og frístundastarfi. 

- Ábyrgð Kolbrún Þ. Pálsdóttir

Markmið rannsóknarinnar var að afla þekkingar á samþættingu skóla- og frístundastarfs fyrir börn úr 1.‒4. bekk. Rannsóknin hófst í upphafi árs 2013 og beindist að verkefninu Dagur barnsins sem Reykjavíkurborg setti á laggirnar árið 2012. Dagur barnsins fólst í því að fimm grunnskólar áttu að þróa leiðir til að samþætta skóla- og frístundastarf, meðal annars með því að færa rekstur frístundaheimilis yfir til skólastjórnenda.  Megin markmið rannsóknar voru þríþætt:
a) Varpa ljósi á gildi þess að unnið sé á skipulegan og á samþættan hátt með skóla- og frístundastarf fyrir börn.
b) Afla hagnýtrar þekkingar um nýjar leiðir í skólastarfi yngstu barna grunnskólans, ekki síst samstarf milli ólíkra faghópa.
c) Varpa ljósi á og efla fagvitund starfsfólks sem gegnir starfi frístundaleiðbeinenda í grunnskólum.

Skýrslu hefur verið skilað til Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og er unnið að birtingu niðurstaðna.

--- 0 ---

Gildi leiksins sem uppeldis- og námsaðferð í leikskóla, grunnskóla og á frístundaheimili. 
- Ábyrgð: Kolbrún Þ. Pálsdóttir og Steingerður Kristjánsdóttir

Markmið rannsóknarinnar er að skapa fræðilega og hagnýta þekkingu á því hvernig hægt er að nota leikinn á ólíka vegu til að virkja börn til þátttöku.  Jafnframt verður leitast eftir að skilja hvað mótar reynslu barna af leik innan ólíkra námsumhverfa, formlegra og óformlegra.

Rannsóknin mun byggja á viðhorfum og reynslu fagfólks sem starfar með börnum á aldrinum 4 til 9 ára.

Fyrsta skref: Rýnihópaviðtöl í maí

Annað skref: Val á einum eða tveimur stöðum þar sem markvisst verður unnið með samstarf á milli leikskóla, grunnskóla og frístundaheimilis

Þriðja skref: Könnun á viðhorfum barnanna sjálfra

--- 0 ---

 

Samstarf skóla og félagsmiðstöðva.
- Ábyrgð: Jakob F. Þorsteinsson og Árni Guðmundsson

Rannsóknin fer fram veturinn 2016 og 2017 og miðar að því að skoða viðhorf og reynslu stjórnenda í skólum og félagsmiðstöðvum til samvinnu og samþættingar. Eigindlegri aðferðafræði verður beitt til að varpa ljósi á reynslu þeirra af samstarfinu, uppeldislegu gildi og hugmyndafræðilegum forsendum þess. Jakob og Árni við Menntavísindasvið Háskóla Íslands bera ábyrgð á rannsókninni og vinna að henni í samvinnu við Benediktu Sörensen, MA í uppeldis- og menntunarfræði. 

--- 0 ---

Útimenntun - upplifun, fagmennska og vald
- Ábyrgð: Jakob Frímann Þorsteinsson (uppfært

Í rannsókninni er tekið til skoðunar að læra úti og varpa ljósi á fjölbreytt svið og birtingarmyndir útimenntunar á Íslandi s.s. í tómstundastarfi, skólastarfi og á öðrum sviðum menntamála. Markmiðið er að athuga útimenntun á Íslandi út frá alþjóðlegu sjónarhorni með sérstakri áherslu á Skotland. 
Hagnýting rannsóknarinnar felst m.a. í því að skýra þá orðræðu og þann hugatakagrunn sem tengist útimenntun, huga að gildi upplifunar og fagmennsku í útimenntun og rýna í vald og áhrif þess á orðræðu, stöðu og gildi útimenntunar. Rannsóknarverkefnið í heild gefur fóður og forsendur fyrir tillögur sem grundaðar eru í íslenskum veruleika en taka mið af þróun á þessu sviði erlendis. Tillögurnar eru gagnlegar við stefnumörkun á starfsvettvangi, hjá ríki og sveitarfélögum á Íslandi. 

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að

  1. fjalla um inntak og gildi útimenntunar í uppeldi og menntun með áherslu á upplifun.
  2. fjalla um mismunandi faglega sýn, starfshætti og hugmyndafræði í starfi úti með fólki og hvaða hindranir eru í vegi útimenntunar á Íslandi.
  3. skoða kenningar um vald og áhrif þess á orðræðu, stöðu og áhrif útimenntunar á Íslandi.
  4. setja fram tillögur um stefnu og aðgerðir á sviði útimenntunar sem að gagni koma í starfi á vettvangi og við stefnumótun hjá ríki, sveitarfélögum og öðrum stefnumarkandi aðilum.

Rannsóknarspurningar:

A) Hvert er inntak, gildi og hlutverk útimenntunar í uppeldi og menntun á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi og hverjar eru megin hindranir fyrir slíku starf.

B) Hver eru áhrif og hlutverk fagmennska og valds á stöðu og þróun útimenntunnar?

C) Hvaða mikilvægu stefnumarkandi aðgerðir þar að marka sem stuðla að framþróun útimenntunar ?

Helstu aðferðir og gögn:

Viðtöl við rýnihópa fagfólks sem starfar við útimenntun, tilviksrannsóknir á ólíkum formum útimenntunar (m.a. á lóðinni, í nærumhverfinu og þegar dvalið er að heiman), spurningarlista fyrir fagfólk og rýni í skrifleg gögn (t.d. lög, viðmið og námskrár).

Áætlaðar fræðigreinar (drög að heiti):

1. Outdoor education - the value of different dimensions of experience.  
2. Professionalism and obstacles  – diverse standpoint and ideology.
3. Theories of power and Outdoor Education.
4. Recommendation on policy and actions about Outdoor Education in practice and on a local and national level.
 

Rannsóknin er liður í doktorsnámi Jakobs og leiðbeinendi er Jón Torfi Jónasson.

--- 0 ---

Einelti 
- Ábyrgð Vanda Sigurgeirsdóttir

Forvarnir og inngrip

Markmið rannsóknar er að rannsaka hvaða aðferðir skila árangri bæði sem forvörn og inngrip gegn einelti. Um er að ræða starfendarannsókn þar sem rannsakandi vinnur með fagfólki á vettvangi. Sjónum er einnig beint að afleiðingum eineltis á börn, bæði þolendur og gerendur.

Gagnasöfnun:

  • Viðtöl við fyrrum þolendur, ungt fólk sem voru þolendur sem börn - og einnig foreldra þessara ungmenna.
  • Rýnihópaviðtöl við kennara um hvað gengur vel og hvað illa - og af hverju - þegar kemur að því að taka á eineltismálum. 
  • Dagbók og fundir rannsakanda með því fagfólki sem rannsakandi vinnur með á vettvangi

Staðan á Íslandi
Markmið rannsóknar er að rýna í gögn úr íslenska hluta alþjóðlegu rannsókninni HBSC er viðkemur einelti. Sjónum er einkum beint að tíðni eineltis, afleiðingum,  verndandi þáttum og sjónarhóli barnanna sjálfra. Þá er sá hópur barna sem segjast bæði vera lögð í einelti og leggja í einelti (e. bully-victims) skoðaður sérstaklega.

Þátttakendur voru börn í 6., 8. og 10. bekk í grunnskólum á Íslandi og svarhlutfall var 84%.

Gagnasöfnun fór fram 2013-2014 en rannsóknin fór fram í 44 löndum.

Meðal annars hefur komið í ljós að þolendur/gerendur eru sá hópur barna sem verst verður úti þegar kemur að afleiðingum eineltis.

--- 0 ---

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is