Vettvangsnám um verkefnisstjórn með starfendarannsóknum

Vettvangsnám um verkefnisstjórn með starfendarannsóknum á vegum Samstarfsnefndar um endurmenntun framhaldsskólakennara í samstarfi við Rannsóknarstofu um starfendarannsóknir við HÍ

Vettvangsnám á starfstíma skóla fyrir starfandi framhaldsskólakennara um verkefnisstjórn með starfendarannsóknum skólaárið 2014-2015. Vettvangsnámið er ætlað starfandi framhaldsskólakennurum úr öllum kennslugreinum sem hafa einhverja reynslu af starfendarannsóknum og áhuga á að vera leiðandi á því sviði. 

Markmið námskeiðsins eru

-          að veita framhaldsskólakennurum tækifæri til að efla hæfni sína til að leiða starfendarannsóknarhóp framhaldsskólakennara

-          að efla þekkingu þátttakenda á hugmyndafræði og aðferðafræði starfendarannsókna   

-          að veita þátttakendum tækifæri til að gera starfendarannsóknir

-          að auka þverfaglegt samstarf kennara í framhaldsskólum

-          að útbúa efni í handbók um starfendarannsóknir

 

Meginviðfangsefni námskeiðs

Á námskeiðinu verður farið yfir hugmyndafræði og aðferðafræði starfendarannsókna og fjallað um fjölbreytileika þeirra og hinar ólíku myndir sem þær hafa tekið á sig og birtast í ólíkum orðum sem notuð eru um slíkar rannsóknir, t.d. action research, practitioner research, lesson study og self-study. Sérstök áherslu verður lögð á starfendarannsóknir í skólum, þar á meðal á Íslandi og ákveðin dæmi skoðuð í því sambandi. Þátttakendur munu gera rannsóknir á eigin starfi sem beinast munu að einhverjum þætti í kennslunni eða skólastarfinu sem þeir/þær hafa áhuga á.

Námshættir

Námskeiðið er vettvangs- og samstarfsmiðað. Grunnhugmyndin er sú að þátttakendur geri rannsókn á eigin starfi um viðfangsefni sem þeir/þær standa frammi fyrir í starfi sínu. Þeir móta sér rannsóknarhugmynd, gera rannsókn á vettvangi og kynna hana fyrir hópnum.  Vinna þátttakenda við starfendarannsóknir sínar munu koma inn á ýmsar hliðar starfenda-rannsókna t.d. ígrundun, gagnaöflun, samstarf og samræður kennara, dagbókarskrif, samstarf við gagnrýninn vin og kynningu niðurstaðna.

Skipulag

Námið verður skipulagt í lotum sem enda með verkefnaskilum og samræðum. Skipulagðar verða vinnulotur í samráði við þátttakendur, tvær til fjórar á misseri auk uppskeruhástíðar í lok skólaársins, alls sem samsvarar 8 dögum. 

Kennarar og umsjón:

Hafþór Guðjónsson, dósent HÍ, Hjördís Þorgeirsdóttir, konrektor MS og Karen Rut Gísladóttir, lektor HÍ verða aðalkennarar og hafa umsjón með vettvangsnáminu. Að auki verða ýmsir sérfræðingar og kennarar fengnir til að fjalla um afmarkaða efnisþætti.
Jean McNiff, prófessor við York St. John University á Englandi verður kennari í einni vinnulotunni.

Umsóknarfrestur til 25. ágúst.

Skráning

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is