Kynbundið ofbeldi: Forvarnir og fræðsla

Skráning er hafin hér 

Einingabært námskeið (5 ECTS á grunnstigi

Inntökuskilyrði: Stúdentspróf (eða jafngildi þess).  
Námskeiðið er ætlað starfsfólki leik-, grunn- og framhaldsskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva.

Markmið námskeiðsins er að efla getu og sjálfstraust þátttakenda til að leiða umræðu og vinna að málum tengdum kynbundnu ofbeldi sem kunna að koma upp í starfi. 

Námskeiðið er skipulagt í samstarfi við Skóla- og Frístundasvið Reykjavíkurborgar. 

Kennsluáætlun (birt með fyrirvara um breytingar)

 

Námskeiðið er kennt á vormisseri 2022 í tveimur staðlotum, auk vikulegra fyrirlestra og kennsluhlés sem nýtist í verkefnavinnu á vettvangi.  

Staðlota 1: Föstudagur 21. janúar og laugardagur 22. janúar. 
Fyrirlestrar: 27. janúar, 3. febrúar, 10. febrúar og 11. febrúar. 
Verkefnalota: Febrúar og mars (þátttakendur vinna verkefni á vettvangi með stuðningi kennara). 
Staðlota 2: Föstudagur 25. mars og laugardagur 26. mars. 

Mynd
""

Skráningin hefst 1. nóvember 2021. 

Umsóknarfrestur er til og með 30. nóvember 2021.

Skráningargjald: 55.000 kr.*

*ATH! Fólk sem er skráð í Háskóla Íslands og hefur greitt skráningargjald fyrir veturinn 2021-22 þarf ekki að greiða sérstaklega fyrir þetta námskeið. Sama gildir um fólk sem hefur skráð sig í opið námskeið á vormisseri, það greiðir samtals 55.000 kr. fyrir misserið (hámark tvö námskeið á misseri). Þau sem tóku opin námskeið á haustmisseri 2021 greiða einungis 20.000 kr. fyrir þetta námskeið. 

Hægt er að sækja um styrki t.d. frá Vonarsjóði KÍ. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu félagsins

Endilega hafið samband við starfsthrounmvs@hi.is ef einhverjar spurningar varðandi skráningar vakna. 

Um námskeiðið

Efni námskeiðsins er kynbundið ofbeldi, ólíkar birtingarmyndir þess og forvarnir. Áhersla er lögð á að auka skilning þátttakenda á kynbundu ofbeldi og birtingarmyndum þess í samfélaginu. Markmið námskeiðsins er tvíþætt, annars vegar að efla fræðilegan grunn þátttakenda og hins vegar að efla færni þátttakenda í vinna gegn kynbundnu ofbeldi í starfi. Markmiðið er að þátttakendur þekki birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og efli færni sína í að leiða umræðu, vinna með viðhorf og vinna að málum tengdum kynbundnu ofbeldi sem kunna að koma upp í starfi á vettvangi.

Kynbundið ofbeldi verður skoðað út frá helstu birtingarmyndum þess í samfélagi okkar. Farið verður í helstu fræðilegu hugtök kynjafræðinnar sem nýtast til þess að greina og skilja kynbundið ofbeldi eins og það birtist okkur í daglegu lífi. Farið verður yfir ólíka stöðu og möguleika karla og kvenna í samfélagi okkar og áhrif hugmynda um karlmennsku og kvenleika á viðhorf okkar og væntingar. Þá verða viðteknar hugmyndir samfélagsins um jafnrétti, ofbeldi og klám teknar til gagnrýninnar skoðunar.

Rík áhersla er lögð á að þátttakendur geti ígrundað eigin viðhorf og vinnu út frá kynjasjónarmiðum en þátttakendum gefst kostur á að tengja hugmyndir sínar, reynslu og þekkingu við starf á vettvangi.

Umsjónarkennari

Mynd af Eyrún Ólöf Sigurðardóttir Eyrún Ólöf Sigurðardóttir Aðjunkt eos [hjá] hi.is

Í lok námskeiðs er gert ráð fyrir að þátttakendur:

  • þekki helstu birtingarmyndir og afleiðingar kynbundins ofbeldis, 
  • þekki og skilji helstu hugmyndir og leiðir tómstundafræðinnar í forvarnarstarfi, 
  • þekki helstu aðferðir á sviði forvarna gegn kynbundnu ofbeldi, 
  • þekki rannsóknir á áhrifum kynbundins ofbeldis, kyngervis og klámvæðingar á ungt fólk, 
  • geti tekið málefnalega og gagnrýna afstöðu til áhrifa kyngervis á daglegt líf ungmenna, 
  • geti beitt starfsaðferðum tómstundafræðinnar í forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi, 
  • geti leitt samtöl við börn og ungmenni um málefni tengd kynbundnu ofbeldi, 
  • geti nýtt sér þekkingu sína og skilning í starfi sínu á vettvangi og í frekara námi.
Mynd
""

Nánari upplýsingar

Mynd af Katrín Valdís Hjartardóttir Katrín Valdís Hjartardóttir Verkefnisstjóri 5255911 kava [hjá] hi.is