Rannsóknarstofa um lífshætti barna og ungmenna

Texti

Markmið stofunnar er að vera víðtækur vettvangur rannsókna á sviði lífshátta barna og ungmenna, einkum því sem lýtur að margvíslegum þroska þeirra, menntun, áhættuhegðun, seiglu og lífssýn.

Rannsóknastofan býður upp á fjölbreytta fyrirlestra, ráðgjöf og námskeið fyrir alla þá sem starfa við eða hafa áhuga á uppeldis- og menntamálum.

Mynd
Image
""

Rannsóknastofan Lífshættir barna og ungmenna var stofnuð árið 2006 og er rannsókna- og fræðslusetur sem heyrir undir Menntavísindastofnun.

Forstöðumaður stofunnar er Sigrún Aðalbjarnardóttir prófessor í uppeldis- og menntunarfræðum en jafnframt starfa þar átta starfsmenn á hinum ýmsu fræðasviðum sem varða þroska og lífshætti barna og ungmenna.

Rannsóknastofan stendur að margvíslegu rannsóknastarfi bæði hérlendis og erlendis á fræðasviðum sem lúta meðal annars að:

 • samskiptum
 • menntun
 • áhættuhegðun
 • seiglu
 • borgaravitund
 • gildismati
 • stöðu ungmenna af erlendum uppruna
 • lífssýn barna og ungs fólks

Jafnframt er fengist við rannsóknir á uppeldisháttum sem styðja við velferð og heilbrigða lífshætti barna og ungmenna.

Stofan leggur áherslu á að birta rannsóknaniðurstöður í ritrýndum tímaritum og á fræðilegum vettvangi en jafnframt er lögð áhersla á samstarf við fagfólk á vettvangi og að miðla rannsóknaniðurstöðum til þeirra.

Í því skyni eru starfsmenn virkir þátttakendur í ráðstefnum en eiga jafnframt frumkvæði að því að skipuleggja ráðstefnur, námskeið og aðra viðburði sem styðja við starf og rannsóknir á sviðinu.

Loks hvetur rannsóknastofan efnilega MA og doktorsnema til rannsókna á sviðinu og leggur áherslu í því skyni á að veita ráðgjöf og skapa þeim tækifæri.

 

Hafðu samband:

 • Tölvupóstur: sa@hi.is
 • Vinnusími: 525-4515           

Forstöðumaður

 • Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor í uppeldis- og menntunarfræðum, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, sa@hi.is

 

Stjórn

 • Ásdís Hrefna Haraldsdóttir, kennslustjóri á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, asdish@hi.is
 • Eva Harðardóttir, aðjunkt/doktorsnemi á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, evahar@hi.is 
 • Eyrún María Rúnarsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, emr@hi.is
 • Kristjana Stella Blöndal, dósent á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, kb@hi.is
 • Hrund Þórarins Ingudóttir, lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, hrundin@hi.is
 • Aðalheiður Markúsdóttir, grunnskólakennari, mam6@hi.is
 • Ragný Þóra Guðjohnsen, aðjunkt Menntavísindasviði Háskóla Íslands, ragny@hi.is
 • Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar við Háskóla Íslands steinuge@hi.is

Skýrslur

 • "Að rækta farsæl samskipti: Framfarir í skólastarfi." Höfundar voru Sigrún Aðalbjarnardóttir og Margrét A. Markúsdóttir. 2009.
 • "Hlúð að samskiptaþroska: Framfarir í skólastarfi" eftir Sigrúnu Aðalbjarnardóttur og Margréti A. Markúsdóttur. 2010.

 

Bækur

 • "Virðing og umhyggja: Ákall 21. aldar" eftir dr. Sigrúnu Aðalbjarnardóttur. 2007.
 • Námsefnið "Samvera" endurútgefið en höfundar þess eru þær dr. Sigrún Aðalbjarnardóttir og Árný Elíasdóttir. 2009
 • Bók með grunnniðurstöðum úr rannsókninni Borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi. 2011.
 • Ungt fólk: Tekist á við tilveruna. 2016

Rannsóknir

Árið 1994 fór Sigrún Aðalbjarnardóttir af stað með langtímarannsóknina:Áhættuhegðun og seigla ungs fólks. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að athuga áhættuþætti í lífi unglinga og ungs fólks sem tengist vímuefnaneyslu þeirra, námsárangri og brotthvarfi frá námi. Neysla og námsgengi eru skoðuð í tengslum við ýmsa félagslega þætti (stétt, fjölskyldugerð), uppeldislega þætti (uppeldisaðferðir foreldra, stuðning foreldra og vina) og sálfræðilega þætti (s.s. sjálfsmat, trú á eigin getu, streitu, depurð, andfélagslega hegðun).

Annað markmið rannsóknarinnar felst í því að hanna þroskalíkan til að greina sálfélagslegan þroska ungmenna (þekkingu, samskiptahæfni, persónulega merkingu) í tengslum við neyslu þeirra og er það nýtt framlag til vísindarannsókna á alþjóðvettvangi. 

Þátttakendur rannsóknarinnar eru allir unglingar Reykjavíkurborgar sem voru í 9. bekkjum grunnskóla Reykjavíkur vorið 1994 (f. 1979). Sömu gögnum hjá sömu einstaklingum hefur verið safnað með spurningalistum frá 1994 til 2002. Einnig hafa verið tekin djúpviðtöl við hluta þeirra um vímuefnaneyslu þeirra og samskipti við fjölskyldu og vini. Jafnframt hafa þessi langtímagögn annars vegar verið tengd við námsárangur hópsins á samræmdum prófum við lok grunnskóla (10. bekkur) og hins vegar við upplýsingar frá Hagstofu Íslands um námsferla og útskriftir til ársloka 2004. Unga fólkinu hefur því verið fylgt eftir frá 14 ára aldri fram á 26. aldursár.

Miðað er að því að nýta niðurstöður þessarar rannsóknar í fyrirbyggjandi starfi með börnum og ungmennum og leggja jafnframt grunn að hagnýtum rannsóknum á þessu sviði.

 

Áhersluþættir rannsóknarinnar

 • Uppeldishættir foreldra og tengsl þeirra við
  • vímuefnaneyslu ungs fólks
  • samskiptahæfni, sjálfsmat og depurð ungs fólks
  • námsárangur ungmenna og brotthvarf frá námi úr framhaldsskóla
 • Trú á eigin getu til að hafa áhrif á líf sitt og vímuefnaneysla ungs fólks
 • Árásarhneigð ungmenna og vímuefnaneysla
 • Sálfélagslegur þroski ungmenna og vímuefnaneysla
 • Viðhorf ungmenna til vímuefnaneyslu og vímuefnaneysla þeirra
 • Kortlagning vímuefnaneyslu sama hóps ungmenna frá 14 til 22 ára aldurs eftir kyni, stéttarstöðu, fjölskyldugerð, fyrri neyslu og neyslu foreldra og vina

Rannsóknin Borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi hófst formlega árið 2007. Markmiðið er að afla þekkingar og skilnings á borgaravitund ungmenna til sjávar og sveita. Meðal annars er leitað eftir gildismati þeirra, hugmyndum um lýðræði, mannréttindi og ábyrgð í samfélaginu. Einnig er leitað eftir þeim áhrif sem þau telja sig hafa í samfélagi sínu og hvaða áhrif þau vildu hafa. Þátttakendur eru 11, 14 og 18 ára, 1500 talsins, í þremur byggðakjörnum landsins. Gögnum er safnað bæði með viðtölum og spurningalistum. Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að geta orðið mikilvægt framlag til rannsókna á borgaravitund barna og ungmenna bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi og hafa fræðilegt gildi sem slíkar.

Þá eru vonir bundnar við að niðurstöðurnar geti lagt grunn að hagnýtum rannsóknum. Þar væri kannað hvernig efla megi borgaravitund ungmenna sem fá tækifæri til að vinna markvisst að ýmsum samfélags- og mannréttindamálum á lýðræðislegan máta.

Úrvinnsla gagna ofangreindar rannsóknar hófst árið 2010. Árið 2011 kom út bók í samvinnu við Félagsvísindastofnun og Menntavísindastofnun Háskóla Íslands þar sem greint er frá öllum helstu tölfræðiniðurstöðum. Bókin kallast sama nafni og rannsóknin: Borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi. Hana má nálgast bæði í Bóksölu stúdenta og í Bóksölu Menntavísindasviðs. 

Nútíminn kallar á góða samskiptahæfni og á það jafnt við um samskipti innan fjölskyldunnar, í félaga- og vinahópnum, á starfsvettvangi og í lýðræðislegu fjölmenningarsamfélagi. Rannsóknarstarf Sigrúnar Aðalbjarnardóttur hófst á að kanna félagsþroska og samskiptahæfni barna og unglinga. Grunnrannsóknirnar beinast m.a. að því að athuga hvernig hugmyndir barna og unglinga (7-13 ára) þróast um ýmis félagsleg og siðferðileg efni, svo sem hvernig leysa megi ágreiningsmál í samskiptum. Einnig hafa þær beinst að því að kanna tengsl á milli samskiptahæfni barna og rökhugsunar þeirra, sjálfsstjórnar, kvíða, félagslegrar einangrunar og námsárangurs. Þá hefur Sigrún skoðað tengsl á milli hugsunar og hegðunar sem er eilíft athugunarefni; sömuleiðis tengsl á milli framfara í hugsun og framfara í hegðun.

Í framhaldi grunnrannsóknanna var farið af stað með rannsóknar- og skólaþróunarverkefnið: Hlúð að félags- og tilfinningaþroska nemenda þar sem kannað var hvort grunnskólanemendur sem tóku þátt í skólaþróunarverkefninu sýndu meiri framfarir í samskiptahæfni en nemendur sem ekki tóku þátt. Skólaþróunarverkefnið stóð yfir frá 1988-1996 og voru niðurstöður afar jákvæðar bæði með tilliti til framfara í hugsun og hegðun.

Þróunarverkefnið felst í að vinna með kennurum yfir skólaárið þar sem fjallað er um tengsl fræða og bekkjarstarfs og hvernig efla megi samskiptahæfni nemenda með tilteknum kennsluaðferðum. Í tengslum við rannsóknina samdi Sigrún námsefni fyrir nemendur og handbækur fyrir kennara og foreldra ásamt Árnýju Elíasdóttur. 

Á árunum 2008 til 2010 var farið af stað með rannsóknar- og skólaþróunarverkefnið: Að rækta farsæl samskipti: Framfarir í skólastarfi. Verkefnið bygðist á ofangreindum rannsóknum og reynslu á þessu sviði sem greint er frá í bók Sigrúnar: Virðing og umhyggja – Ákall 21. aldar.

Unnið var á vettvangi skólastarfs í samstarfi við skólastjóra og kennara grunnskóla. Verkefnið miðaði að því að rækta samskiptahæfni, samlíðan og siðferðiskennd nemenda og leggja um leið grunn að borgaravitund þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Leitast var við að þroska hugsun þeirra um ýmis félagsleg, tilfinningaleg og siðferðileg efni og efla um leið hæfni þeirra í daglegum samskiptum, m.a. hæfni þeirra til að setja sig í annarra spor, skoða mál frá ýmsum sjónarhornum og koma sér saman um lausn mála. Annað markmið verkefnisins var að skapa kennurum aðstæður til að ígrunda starf sitt og veita þeim tækifæri til að þróa sig og vaxa í starfi.

Í þessu rannsóknarverkefni er hugað sérstaklega að fagmennsku eða uppeldis- og menntunarsýn kennara og skólastjórnenda. Sú hugsun liggur að baki að kennarar og skólastjórnendur sem búa yfir víðri og djúpri uppeldis- menntunarsýn nái betri árangri í skólastarfi. Markmið verkefnisins er að öðlast dýpri skilning á hugmyndum þeirra um kennslu sem byggja megi á við að efla þá í starfi og stuðla að skólaþróun. Í þessu skyni er sett fram fræðilíkan um uppeldis- og menntunarsýn. Áhersla er lögð á að greina leiðarljós þeirra, gildi í starfi, markmið, leiðir að markmiðum og daglega starfshætti. Auk þess er kannað hvernig lífssaga þeirra tengist markmiðum þeirra og starfsháttum.

Fræðilíkanið veitir þá möguleika að greina annars vegar hvernig sýn og starfshættir einstakra kennara þróast og hins vegar að skoða mismunandi sýn þeirra og starfshætti. Fræðilíkanið er nýtt framlag til rannsókna á fagmennsku kennara og skólastjórnenda á alþjóðlegum vettvangi og hefur vísindalegt gildi sem slíkt. Í umræðu um og í rannsóknum á þróun skólastarfs eru vonir bundnar við að kennarar, skólastjórnendur, rannsakendur og þeir sem standa  að kennaramenntun geti nýtt sér þetta líkan í því skyni að efla skólastarf.

 

Áhersluþættir innan þessa rannsóknasviðs

 • Hvernig hugmyndir kennara um uppeldis- og menntunarsýn sína –markmið, gildi, kennsluaðferðir og kennslustíl — þróast
 • Lífssögur kennara og hvernig þær tengjast uppeldis- og menntunarsýn þeirra; markmiðum, gildum, áhuga á starfinu  og kennsluaðferðum
 • Kennsluaðferðir kennara í bekkjarstarfi með áherslu á umræður og tengsl þeirra við markmið kennara og uppeldis- og menntunarsýn

Fræðilíkanið hefur í fyrsta lagi verið notað til að greina uppeldis- og menntunarsýn kennara í skólaþróunarverkefnum þegar þeir leitast við að efla félagsþroska nemenda og samskiptahæfni. Í öðru lagi hefur það verið notað til að skoða uppeldis- og menntunarsýn skólastjóra og kennara sem standa að fjölmenningarlegri kennslu. Í þriðja lagi hefur það verið notað til að greina uppeldis- og menntunarsýn kennara sem vinna að því að efla lýðræðislega borgaravitund nemenda.