Leiðtogar um land allt
Í nóvember 2020 fól mennta- og menningarmálaráðuneyti Háskóla Íslands, Menntavísindasviði að þróa námskeið fyrir kennara allra skólastiga, auk annars fagfólks í menntakerfinu. Námskeiðin eru liður í aðgerðaráætlun vegna menntastefnu til ársins 2030 og náið samstarf er við Háskólann á Akureyri og Kennarasamband Íslands um verkefnið. Samkomulag mennta- og menningarmálaráðuneytis og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands nær til lok árs 2022 og nær til 900 leiðtoga með 45 ólíkum námskeiðum.
Markmið verkefnisins er að efla námssamfélög kennara í leik,- grunn- og framhaldsskólum sem kenna ólíkar námsgreinar- og svið. Verkefnið skapar nýja möguleika til starfsþróunar og byggir á hugmyndafræði leiðtoganáms. Leiðtoganám með eflingu námssamfélags kennara í eigin skóla byggir á rannsóknum á því hvað reynist best í starfsþróun kennara, að hún:
- sé rauntengd við aðstæður náms og kennslu,
- sé studd markvissri leiðsögn samstarfsfólks og stjórnenda,
- byggi á aðferðum jafningjamats og endurgjafar og
- grundvallist á gagnrýninni samræðu um nám og kennslu á eigin vettvangi.
Lykilatriði er að skapa samfélag innan skólanna þar sem kennarar og annað fagfólk ræðir saman um ólíkar aðferðir, deilir þekkingu, ögrar og hvetur hvert annað áfram í stöðugri umleitan til umbóta. Áhersla er lögð á að tengja viðfangsefni námskeiða markvisst við eigið starf kennara og nám nemenda. Námskeið byggjast upp á fjórum þróunarhringjum:
- undirbúningur hvers og eins
- samvinna kennara og leiðtoga, efnið rætt og kennsla undirbúin
- framkvæmd kennslu, fylgst með kennslu samkennara og
- ígrundun og samantekt, reynslan metin.
Viðfangsefni hvers námskeiðs verður skýrt afmarkað og rúmast innan þess svigrúms sem kennarar hafa til starfsþróunar á vinnutíma. Námskeiðin eru kennd í stað- eða fjarnámi og því er aðgengi allra að leiðtoganámskeiðum tryggt, um land allt.
Haustið 2020 hófu rúmlega 100 leiðtogar í stærðfræði nám á námskeiðum á vegum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Það er í fjórða sinn sem námskeið í stærðfræði fara fram með hugmyndafræði leiðtoganáms. Áætlað er að leiðtogarnir 100 þrói starf í eigin skólum með þátttöku um 500 kennara á yngsta stigi og miðstigi í stærðfræðikennslu.
Námskeiðin sem þróuð verða snerta námsgreinar á borð við íslensku, náttúrufræði og stærðfræði en einnig verða þróuð námskeið í þverfaglegum viðfangsefnum náms, kennslu og frístundastarfs á borð við heilbrigði, félags- og tilfinningahæfni, skólamenningu, námsmati, frístundalæsi, væntingum og hvatningu og þátttöku í skóla margbreytileikans. Þá verði einnig þróuð námskeið til eflingar kennslufræðilegrar forystu og mótun lærdómssamfélaga í skólum.