Opinn og gjaldfrjáls aðgangur

Menntavísindastofnun vinnur sérskýrslur um niðurstöður grunn- og framhaldsskólakannanna fyrir fræðsluumdæmi og einstaka skóla sem eru nægilega stórir til að nafnleynd svarenda sé tryggð. Sérskýrslur eru unnar um leið og fyrirlögn lýkur og eru afhentar viðkomandi skólastjórum, skólameisturum eða fræðslustjórum sem ákveða hverjum þær eru gerðar aðgengilegar. Ekki er tekið gjald fyrir sérskýrslur fræðsluumdæma og skóla.

Gagnagrunnur Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar er eins opinn og hægt er svo lengi sem nafnleynd svarenda er tryggð að fullu og ekki er mögulegt fyrir þriðja aðila að tengja svör við einstaka skóla.

Lýsigögn fyrir gagnagrunn ÍÆ eru aðgengileg í mælaborði og unnið er að skráningu í GAGNÍS með aðgangsstýringu. Þeir sem vilja vinna úr niðurstöðum grunn- og framhaldsskólakannanna geta haft samband við Menntavísindastofnun HÍ og beðið um gagnasafn með tilteknum breytum yfir tiltekið tímabil. Slíkar beiðnir eru almennt samþykktar ef minnst sex mánuðir eru liðnir frá fyrirlögn.

Gerviauðkenni fyrir skóla eru skráð í gagnagrunn ÍÆ. Þau eru almennt ekki afhent utanaðkomandi aðila nema þau séu nauðsynleg fyrir fyrirhugaða greiningu og er þá gengið svo frá málum að svör verði ekki tengd við einstaka skóla. Til að varna því að svör verði tengd við skóla út frá nemendafjölda eru dregin úrtök í stað þess að afhenda gagnasafnið í heild,  litlir skólar á sama landsvæði eru sameinaðir og óvenjulega stórir skólar kunna að vera fjarlægðir úr gagnasafninu eða úrtök dregin úr þeim með minni líkum en úr öðrum skólum.

Aðgangur að gagnagrunni ÍÆ er alltaf gjaldfrjáls.