Header Paragraph

Tvær nýjar greinar í Netlu

Image

Nýlega komu út tvær nýjar greinar í Netlu – veftímariti um uppeldi og menntun.

Grein Ingibjargar Óskar Sigurðardóttur, Emilíu Lilju Rakelar Gilbertsdóttur og Sigríðar Þorbjörnsdóttur „Ég elska flæðið, minna stress og minna um árekstra“: Innleiðing flæðis í leikskólastarf leitast við að varpa ljósi á hvernig innleiðing flæðis í leikskólastarf getur stutt við samskipti barna og meðvitund starfsfólks um eigið hlutverk. Rannsóknin er mikilvægt innlegg í umræðu um leikskólastarf og styður við hugmyndir um að starfendarannsóknir séu góð leið til að bæta skólastarf.

Í grein Jóns Ásgeirs Kalmanssonar Í góðu tómi: Um rætur orðsins skóli er fjallað um rætur orðsins skóli í forn-gríska orðinu skole. Rætt er um hugmyndir forn-grísku heimspekinganna Platons og Aristótelesar um skole en einnig eru skoðaðar hugmyndir heimspekinga nær okkur í tíma. Skole er jafnan þýtt sem tóm, tómstund, næði, eða eitthvað álíka. Grafist er fyrir um hvaða merkingu orðið hefur til dæmis í tveimur samræðum Platons, Þeætetusi og Faídóni, og reynt að varpa ljósi á hvers vegna það er mikilvægt í forn-grískri heimspeki. Greininni lýkur á stuttri umfjöllun um mögulegan lærdóm um nútímaskóla sem draga megi af þessari athugun.

Lesa má greinarnar í heild sinni inn á vef Netlu Ársrit 2023 - Netla (hi.is)