Í ljósi vaxandi tíðni og margbreytileika ofbeldis í nútímasamfélagi og daglegu lífi – svo sem heimilisofbeldi, ofbeldi í skólum og ofbeldi meðal ungmenna – miðar rannsóknarhópurinn að því að rannsaka orsakir, birtingarmyndir, afleiðingar og mögulegar leiðir til inngripa og forvarna. Nokkrir fræðimenn við Menntavísindasvið Háskóla Íslands vinna nú þegar að rannsóknum á þessu sviði. Hópurinn stefnir að því að sameina þessa aðila og efla rannsóknir á ofbeldi út frá þverfaglegu og alþjóðlegu sjónarhorni.

Ofbeldi í sínum fjölmörgu myndum – ofbeldi í nánum samböndum, þekkingarlegt (epistemic), kerfislægt, pólitískt, efnahagslegt og stafrænt ofbeldi – er eitt helsta samfélagsvandamál heimsins í dag. Það er ekki aðeins stórt lýðheilsuvandamál heldur einnig grundvallarógn við mannréttindi, þróun og félagslega samheldni. Þrátt fyrir fjölmargar tilraunir til að bregðast við ofbeldi hefur skortur á þverfaglegum og reynslubundnum aðferðum hamlað þróun hagnýtra lausna. Hópurinn stefnir að því að brúa þetta bil með því að efla þverfaglegt samstarf, byggja á gagnadrifnum niðurstöðum og hafa mótandi áhrif á stefnumörkun. Einnig er markmið hópsins að efla samstarf milli deilda og háskóla og styrkja getu stofunnar til að sækja um rannsóknarfé frá innlendum og erlendum sjóðum og stofnunum sem vinna að forvörnum og viðbrögðum við ofbeldi.

Rannsóknarhópurinn mun einnig þjóna sem vettvangur fyrir doktorsnema og nýdoktora sem vinna að verkefnum tengdum ofbeldi, í samstarfi við meðlimi hópsins sem leiðbeinendur og sérfræðinga á sviðinu.

 

 

Formaður:

Jón Ingvar Kjaran, prófessor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands (jik@hi.is)

Stjórn:

Mohammad Naeimi, aðjunkt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands (mohammad@hi.is)

Brynja E. Halldórsdóttir, dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands (brynhall@hi.is).

Sue Gollifer, lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands (sueg@hi.is)

Share