Rannsóknarstofa í textíl hélt umræðufund 25.3.2025.
Rannsóknarstofa í textíl hélt umræðufund 25.3.2025.
Rannsóknarstofa í textíl hélt umræðufund 25.3.2025.
Yfirheiti fundarins var Rannsóknir - Nám – Störf – Starfsvettvangur.
Á fundinn voru mættir um 50 manns, fyrir utan aðila frá stjórn Rannsóknarstofu í textíl, voru mættir kennarar og nemar frá Listaháskóla Íslands, kennarar og nemar frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands, kennarar og nemar frá Myndlistarskóla Reykjavíkur, kennarar og nemar frá Tækniskólanum, textílkennarar í grunnskólum, fata- og textílkennarar í framhaldsskólum og nemendur.
Niðurstöður, úr hópavinnu átta hópa þátttakenda, sýna að mikil þörf er á samvinnu milli framhaldsskólanna og háskóla í milli, sem og allra skólastiga frá grunnskóla og upp í háskóla, þ.e. samfelldur þráður frá efri bekkjum grunnskóla og áfram í gegnum skólakerfið. Gæti slíkt samstarf verið fólgið í heimsóknum og kynningum á báða bóga, t.d. textílnemendur í grunnskóla í heimsókn í fata- og textíláfanga á framhaldsskólastigi og jafnvel á háskólastigi. Einnig gætu nemendur í framhaldsskólum og nemar á háskólastigi heimsótt yngra skólastigið og kynnt námið sitt og rætt um hvers vegna þeir völdu að sérhæfa sig í fata- og/eða textílhönnun eða það að verða textílkennarar eða iðnlærðir. Aðrar leiðir væru samsýningar skóla í milli eða milli skólastiga. Einnig mætti sjá fyrir sér sameiginleg vinnurými fyrir nýútskrifaða: verðandi fata- og textílhönnuði, textílkennara skólastiga og kjóla- og klæðskerameistara. Leita þarf leiða til að nýta sérhæfingu skólanna og efla skiptinám á milli skóla – framhaldsskóla í milli og háskóla í milli.
Einnig kom fram að efla mætti kynningar á starfsumhverfi nýútskrifaðra nema og eftirfylgni, t.d. með því að efla tengslanet og ráðgjöf frá þeim sem reyndari eru. Þannig er mikilvægt að skapa vettvang fyrir nýútskrifaða og þeirra sem þegar starfa við fagið og eru reyndari. Kallað er eftir meira samstarfi við atvinnulífið og að starfstengja betur fata- og textílnám á öllum skólastigum. Fyrirtækjum og skólasamfélaginu ætti að þykja eftirsóknarvert að leita til háskólanna eftir nýútskrifuðum nemum í vinnu eða verkefni. Sama gæti átt við framhaldsskólastigið. Vinna ætti að því að koma á styrktu eða launuðu starfsnámi fyrir háskólanema eða nemendur í framhaldsskólanámi.
Stjórnvöld og styrkjaumhverfið verða að átta sig á því að þróunarvinna og rannsóknir í textíl tekur tíma, þ.e. að viðurkenna handbrögðin og tímann sem liggur á bak við. Innleiða þurfi nýja tækni og þekkingu á forritum innan fata- og textílgreinarinnar og að samnýta hugvit, tækni og tæki, t.d. við nýtingu textílhráefna og til að stunda endurnýtingu og endursköpun. Einnig var kallað eftir því að það vanti textílsamfélag og að Rannsóknarstofa í textíl gæti mögulega verið sá vettvangur til að byrja með.
Ýmislegt var rætt um styrkjaumhverfið. Koma ætti á skattaafslætti hjá fyrirtækjum/verkstæðum sem ynnu að fataviðgerðum, fatabreytingum, endurnýtingu og nýsköpun í textíl. Förgunarskatt mætti leggja á fatasóun og þeir fjármunir síðan nýttir til að styðja við endur- og nýsköpun á fatnaði og öðrum textílafurðum á skipulagðan hátt, t.d. við upphaf og þróun vöru og síðan væru framhaldsstyrkir til að markaðssetja og koma afurðum í sölu. Setja á innflutningsgjöld á hraðtísku og auka gæðaeftirlit á skaðlegum efnum og upplýsa neytendur um að nauðsynlegt sé að textíll eigi sér framhaldslíf. Efla þarf neytendafræðslu á öllum skólastigum, þ.á.m. um textílfræði, meðhöndlun á tilbúnum afurðum og hvernig megi viðhalda líftímanum. Efla þekkingu og kunnáttu í handverki. Vinna þarf að því að sjá hagnaðinn í að endurvinna með úrvinnslugjaldi og úrvinnslustyrkjum. Mikilvægt sé að þekkja styrkjaumhverfið fyrir stofnun fyrirtækja og þróun afurða, starfstengt nám, námsefnisgerð og bókaútgáfu, þróunarstyrki, samstarfsstyrki og vegna rannsókna. Tillaga kom einnig fram um að Rannsóknarstofa í textíl myndi kynna slíka styrki og koma með tillögur að samstarfsmöguleikum.
Rannsóknarstofa í textíl hefur orðið við þessari beiðni og stofnað styrkja- og samstarfsnefnd sem mun vinna að því að skoða möguleikana innan styrkjaumhverfisins og útbúa lista og upplýsingar og jafnvel leiðbeiningar sem og umsóknardagsetningar. Einnig gætu verið upplýsingar um þau verkefni sem áður hafa fengið styrki sem hjálpar líka til við að átta sig á möguleikunum. Einnig mun nefndin skoða tillögur sem viðraðar voru á umræðufundinum í síðustu viku og ýjað hefur verið að hér að ofan, þ.e. samstarf milli skólastiga, fagaðila og atvinnulífsins og finna lykilfólk sem hægt er að setja sig í samband við. Ragna Sigríður Bjarnadóttir lektor í hönnunardeild LHÍ mun leiða nefndina, en ásamt henni eru Soffía Magnúsdóttir fata- og textílkennari í FB og Ásdís Jóelsdóttir lektor í textíl og hönnun við Menntavísindasvið HÍ. Nefndin, sem tekur til starfa næsta haust, mun einnig leita til fleiri fagaðila og nema.
Stjórn Rannsóknarstofu í textíl