RannVERK: Rannsóknarverkefni

Núverandi verkefni

Flest ungmenni á framhaldsskólastigi á Íslandi velja bóknám til stúdentsprófs fram yfir starfsmenntun og ójöfn staða bóknáms og starfsnáms er gjarnan sögð skýringin. Það hefur lengi verið stefna menntayfirvalda á Íslandi að efla starfsmenntun, auka virðingu hennar og breyta þeirri ímynd að hún sé blindgata í menntakerfinu, en lítið virðist breytast þegar til lengri tíma er litið. Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka birtingamyndir stöðu starfsnáms á framhaldsskólastigi á Íslandi, sérstaklega í samanburði við bóknám. Þetta verður gert með því að skoða hvernig umsóknir og innritun í starfsnám og bóknám í framhaldsskólum hafa þróast á síðastliðnum 20 árum. Litið verður til viðhorfa ungmenna og hvað hvetur þau eða letur til að velja starfsnám í því augnamiði að skoða hvað hefur áhrif á námsval þeirra í þessu samhengi. Einnig hvað það segir um stöðu starfsmenntunar hvort ungu fólki hafi þótt starfsnámbrautir raunhæfur kostur eða ekki. Rannsóknin rýnir einnig hvað innihald og áhersla á starfsnámsbrautum, í samanburði við bóknámsbrautir, gefur til kynna um stöðu starfsmenntunar. Jafnframt verður kannað hvaða afleiðingar námsvalið nemendur telja að hafi áhrif á framtíðarhorfur sínar, sérstaklega þar sem bóknámsbrautirnar hafa löngum verið taldar leiðin að æðri menntun og virðingarsess í þjóðfélaginu. Á heildina litið mun rannsóknin varpa ljósi á stöðu starfsmenntunar á framhaldsskólastigi á Íslandi og meðal annars leggja grunn að frekara endurskipulagi menntakerfisins.

Ábyrgð: Elsa Eiríksdóttir, dósent á Menntavísindasviði HÍ

Samstarfsaðilar: Menntamálastofnun og Tækniskólinn

Tímabil: 2022-

Framhaldsskólinn og COVID-19: Kreppa, áskoranir og aðlögun. Spurningakannanir voru lagðar tvisvar fyrir starfsfólk allra framhaldsskóla árið 2020. Þrír ólíkir framhaldsskólar voru valdir og tekin viðtöl við hagaðila í öllum þeirra. Nemendur í fjórum ólíkum framhaldsskólum svöruðu spurningalista árið 2021, sem og foreldrar á landsvísu. 

Ábyrgð: Guðrún Ragnarsdóttir, dósent á Menntavísindasviði HÍ og Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor á Menntavísindasviði HÍ

Styrktaraðilar: Rannsóknarsjóður RANNÍS (nr. 217900-051)

Tímabil: 2021-2023

Tengdar greinar:

Alþjóðlega rannsóknin Borgarbörn eða International Study of City Youth (http://iscy.org) nær til ellefu borga í tíu löndum sem eru auk Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga: Barcelona, Bergen, Bordeaux, Ghent, Melbourne, Montreal, Sacramento, Santa Barbara, Turku og Wroclaw. Meginmarkmið rannsóknarinnar er samanburður á áhrifum skóla og menntakerfa á námsferil ungmenna og á viðhorfum þeirra til skóla og menntunar í borgunum ellefu. Að auki mun rannsóknin auka skilning á því hvort og þá hvernig íslenska menntakerfið – samanborið við önnur menntakerfi – ýtir undir skilvirkni og jöfnuð fyrir ungt fólk sem stendur á tímamótum á leið á vinnumarkað eða í frekara nám, og hæfni þess til að taka virkan þátt í samfélaginu.

Þátttakendur í Borgarbörnum eru nemendur á höfuðborgarsvæðinu sem fæddust árið 1999 og voru í 10. bekk skólaárið 2014-2015. Það skólaár var könnunin lögð fyrir um 2000 nemendur í 44 grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Vorið 2018 var ungmennunum fylgt eftir þegar þeir voru á 19. ári, bæði meðal framhaldsskólanema og þeirra sem ekki voru í skóla.

Tímabil: 2018-

Ábyrgð: Kristjana Stella Blöndal, dósent á Félagsvísindasviði HÍ

Styrktaraðili: Rannsóknarsjóður RANNÍS (nr. 184730-051)

Tengdar birtingar:

Markmið rannsóknarinnar er að fá innsýn í reynslu nema af starfsnámi í Evrópu. Nánar tiltekið að afla vitneskju um hvað nemendur telja mikilvægt varðandi undirbúning og framkvæmd námsdvalar í starfsnámsgreinum. Jafnframt að fá upplýsingar um þeirra viðhorf og upplifun á áhrifum dvalarinnar, bæði faglega og félags- og menningarlega, og sérstaklega hvaða áskoranir þau upplifðu í ferlinu.

Tekin voru viðtöl við 13 fyrrverandi starfsmenntanema sem tóku hluta af námi /vinnustaðanámi sínu erlendis eða fóru í starfsþjálfun eftir útskrift á vegum Erasmus+ áætlunarinnar. Lögð var áhersla á að ræða við nemendur úr mismunandi fögum og dvalið höfðu í nokkrum löndum. Rætt var um undirbúning og framkvæmd námsdvalarinnar, en einnig upplifun meðan á dvölinni stóð, bæði út frá faglegri og menningarlegri reynslu.

Tímabil: 2021-2022

Ábyrgð: Elsa Eiríksdóttir, dósent á Menntavísindasviði

Unnið fyrir: Rannsóknarmiðstöð Íslands (Rannís)

Unnið af: Guðfinnu Guðmundsdóttur

Tengdar birtingar: 

Eldri rannsóknarverkefni

Rannsóknin miðaði að því að skoða hvernig kennsla og þjálfun færi fram í tvískiptu kerfi starfsmenntunar á framhaldsskólastigi og sérstaklega samspil á milli náms í skóla og á vinnustað í löggiltum iðngreinum. Verkefnið var í þremur hlutum: (1) Greining á námskrám löggiltra iðngreina og fyrirkomulagi samspils náms í skóla og á vinnustað. (2) Viðtöl við 24 nýútskrifaða sveina, kennara í skólum og meistara á vinnustöðum í fjórum löggiltum iðngreinum með ólíkt fyrirkomulag á samspili náms í skóla og á vinnustað. (3) Spurningalisti sendur til allra nýútskrifaðra sveina, kennara og meistara í löggiltum iðngreinum á Íslandi. Áhersla í viðtölum og spurningalistanum var á hvernig samspil náms í tvískiptu kerfi færi fram, hvernig það væri skipulagt og kosti og galla hvors námsstaðar.  

Ábyrgð: Elsa Eiríksdóttir, dósent á Menntavísindasviði HÍ

Styrktaraðilar: Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Rannsóknarsjóður Háskóla Íslands

Tímabil: 2015-2020

Nokkrar tengdar greinar:

 

Rannsóknin Starfshættir í framhaldsskólum fór fram á árunum 2012–2018. Hún var samstarfsverkefni rúmlega 20 manna hóps rannsakenda, bæði kennara og nemenda við Menntavísinda- og Félagsvísindasvið Háskóla Íslands með aðsetur á Rannsóknastofu um þróun skólastarfs á Menntavísindasviði. Rannsóknin var hluti af norræna öndvegissetrinu Justice through Education (JustEd, e.d.) sem styrkt var af NordForsk. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á starfshætti í framhaldsskólum og þann bakgrunn og þau öfl sem móta þá. Athyglin beindist einkum að skipulagi og stjórnun skóla og skólastarfs, námi og kennslu, námsumhverfi og viðhorfum nemenda, kennara og stjórnenda til skólastarfsins. Gagna var aflað árin 2013–2014 í níu framhaldsskólum víða um land sem voru valdir með lagskiptu slembiúrtaki. Fyrir liggja vettvangslýsingar á 130 kennslustundum (167 klukkustundum), skráð viðtöl við stjórnendur, kennara og nemendur, alls 61 að tölu við samtals 100 manns, 111 sett ljósmynda úr mannlausum kennslurýmum og 90 náms- eða kennsluáætlanir, auk opinberra gagna sem safnað var. 

Ábyrgð: Gerður G. Óskarsdóttir og Ingólfur Á. Jóhannesson, prófessor við Menntavísindasvið HÍ

Styrktaraðilar: NordForsk og Rannsóknarsjóður Háskóla Íslands

Tímabil: 2012-2018

Nokkrar tengdar greinar: