Námskeiðið styrkir kennara í að efla textalæsi með nemendum og auka sjálfstraust og vilja þeirra til að halda áfram ritsmíðum.

Markmið

Á námskeiðinu verður rætt um texta af öllum toga:

  • blaðatexta
  • kennslubókatexta
  • bókmenntatexta

Hugtakið textalæsi verður kynnt og rætt.

Rætt verður um ólíkar textategundir og einkenni þeirra. Þá verður rætt um fjölhátta eða samsetta texta og gildi þess að nemendur verði læsir á alla þætti textans.

Síðast en ekki síst verður rætt um mikilvægi þess að hyggja að þremur textasviðum, bæði við lestur og lestrarþjálfun og eins þegar nemendur skrifa sjálfir.

Enn er ónefnt það gagn sem kennarar geta haft af því fara yfir ritsmíðar nemenda sinna á þremur textasviðum, sú nálgun er líklegri til að efla með nemendum sjálfstraust og vilja til að halda áfram.

 

Viðfangsefni

Á fyrsta fundi verður haldinn stuttur fyrirlestur til kynningar á viðfangsefninu.

Eftir það tekur við verkefnavinna þar sem þátttakendur skoða ólíkar textategundir og ræða um einkenni þeirra.

Þátttakendur nýta sér ritunarverkefni frá eigin nemendum og greina þau með því að athuga textasviðin þrjú.

Þátttakendur ljúka námskeiðinu með því að semja verkefni sem dregur athygli nemenda þeirra að textasviðunum þremur.

Gott væri ef þátttakendur settu verkefnin á vef eða skiptust á þeim á annan hátt en það verður rætt sérstaklega.

 

Vinnulag

Þátttakendur hittast einu sinni í viku þrjár vikur í röð, 3 klst. í hvert skipti, sem sé 9 klst. alls.

Ekki verður krafist skila eða vinnu milli funda en í lok námskeiðs kynna þátttakendur verkefni sín.

 

Umsjón

Þórunn Blöndal

Share