Rannsóknarstofa um skapandi skólastarf (RASK)

Texti

Hlutverk stofunnar er að rannsaka skapandi skólastarf á öllum stigum skólakerfisins, standa fyrir viðburðum, taka þátt í ráðstefnum og fundum til að miðla þekkingu á sviði stofunnar. 

Mynd
Image
Kona að flokka póstit miða

Að rannsóknarstofunni standa Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Háskólinn á Akureyri. Rannsóknarstofan mun beita sér fyrir rannsóknum og þróunarverkefnum með áherslu á skapandi skólastarf.
 

Hlutverk og markmið

  • Rannsaka skapandi skólastarf á öllum stigum skólakerfisins
  • Standa fyrir viðburðum
  • Taka þátt í ráðstefnum og fundum til að miðla þekkingu á sviði stofunnar
  • Stofan verði vettvangur fyrir og taki þátt í umræðu um skapandi skólastarf og taki að sér verkefni sem til hennar er beint
  • Skapa vettvang fyrir meistara- og doktorsnema til að taka þátt í rannsóknum og taka að sér rannsóknarverkefni sem til stofunnar er beint

 
Áhersla er lögð á lýðræðislega þátttöku og að þátttakendur stofunnar komi víðsvegar að. Í þeim anda skal stofan vera í stöðugri þróun og taka tillit til hugmynda og tillagna sem beint er til hennar frá þátttakendum stofunnar og öðrum áhugasömum um skapandi skólastarf.

Leitast verður við að hafa samstarf við aðrar rannsóknarstofur eins og við á þar sem skapandi skólastarf er mjög þverfaglegt. Allir aðilar stofunnar geta komið með tillögur um verkefni og geta komið þeim á framfæri við stjórn stofunnar og geta einnig tekið þátt í framkvæmd þeirra. 
 

Meðal viðfangsefna

  • Kennsluaðferðir
  • Skólaþróun
  • Námskrár
  • Námsefni
  • Námsgögn
  • Skipulag náms og kennslu
  • Námsmat

 
Rannsóknarstofa um skapandi skólastarf hefur aðsetur á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og starfar undir hatti Menntavísindastofnunar MVS.

Forstöðumaður

  • Svanborg R. Jónsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, svanjons@hi.is

Stjórn

  • Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri
  • Brynhildur Þórarinsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri
  • Ása Helga Ragnarsdóttir, kennari á Menntavísindasviði HÍ

Varastjórn

  • Ingibjörg Jóhannsdóttir, skólastjóri Landakotsskóla
  • Ólöf Stefánsdóttir, kennari í Langholtsskóla
  • Skúlína Kjartansdóttir, doktorsnemi og aðjúnkt við Menntavísindasvið HÍ

RASKA rannsókn um sköpun í skólastarfi

Færnin til skapandi hugsunar og skapandi aðgerða hefur um nokkra hríð verið viðurkennd sem nauðsynlegur hluti af almennri menntun.

Í íslensku er þörf fyrir að nota mismunandi samsetningar með orðinu sköpun eða skapandi til að ná yfir enska orðið „creativity” eða „creative” og fer það eftir samhenginu hvaða orð eiga best við.

Stundum er viðeigandi að segja, sköpunargáfan, skapandi hugsun, skapandi færni, skapandi vinna eða skapandi athafnir/aðgerðir eða stundum einfaldlega sköpun.

Í opinberri orðræðu á Íslandi hefur á undanförnum áratug verið áberandi trú á og kall eftir að nýsköpun sé lausnarorð sem leysi vanda atvinnulífs og efnahagsþróunar.

Í nýrri menntastefnu íslenskra menntayfirvalda sem kynnt var 2011 byggir á sex grunnþáttum menntunar sem leggja skal til grundvallar allri grunnmenntun frá leikskóla til framhaldsskóla.

Einn af grunnþáttunum sex er sköpun og er hann talinn lykilþáttur í menntun sem snertir og fléttast saman við hina grunnþættina á margvíslegan hátt. Í almennri námskrá grunnskóla 2011 segir m.a.:

„Í sköpun felst að móta viðfangsefni og miðla þeim, búa til, gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi kann eða hefur gert áður.“

Á Menntavísindasviði Háskóla Íslands fór fram (2012-13) vinna að frumkvæði þáverandi forseta sviðsins til að gera sköpun að sýnilegum og virkum hluta af öllu námi á sviðinu.

Kennsluhættir kennara á Menntavísindasviði þurfa að einkennast meðal annars af því að þeir styðji við og efli skapandi færni nemenda sem aftur beita sinni þekkingu og færni til að efla sköpun sinna nemenda hvort heldur þeir eru í leik-, grunn- eða framhaldsskóla.

Sköpunarþátturinn á ekki aðeins við um kennslu í list- og verkgreinum heldur á hann að vera gegnumgangandi í öllu skólastarfi eins og segir í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla og slíkt hið sama á við í kennaramenntunarstofnunninni Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Til að þróa vinnu kennara með áherslu á sköpunarþáttinn var lagt lagt upp með rannsóknarverkefni með aðferðafræði starfendarannsókna sem tekur til þriggja kennara á Menntavísindasviði og fimm starfenda í leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Kennararnir gera úttekt á kennslu sinni og kennsluháttum og móta í kjölfarið áætlun um með hvaða hætti þeir geti aukið hinn skapandi þátt í námi nemenda sinna.

 

Rannsóknarsnið

Starfendarannsóknasnið hentar vel því meginmarkmiði rannsóknarverkefnisins að varpa ljósi á hvaða leiðir kennarar á fjórum skólastigum fara til að efla sköpun í kennslu sinni og námi nemenda.

Niðurstöður rannsóknarinnar geta verið öðrum leiðarljós um leið og ferlið hefur jafnóðum áhrif á kennslu kennaranna sem taka þátt í rannsókninni.

Í starfendarannsóknum er yfirleitt bornar fram rannsóknarspurningar sem gjarnan beinast að því að spyrja:

  • hvernig get ég bætt mína kennslu, skilning minn á kennslu eða aðstæður í mínu starfsumhverfi?

Rannsakandinn er viðurkenndur sem miðpunktur rannsóknarinnar og þeirra aðgerða sem eru skoðaðar og framkvæmdar sem hluti af rannsóknar og þróunarferli.

Í starfendarannsóknum er lögð áhersla á að birta niðurstöður ekki aðeins á eigin vinnustað þar sem þær koma beint að gagni heldur einnig þar sem þær eru aðgengilegar öðrum í innlendum og alþjóðlegum tímaritum.

 

Gagnaöflun

Kennararnir sem taka þátt í rannsókninni eru bæði rannsakendur og þeir sem eru rannsakaðir, bæði störf þeirra og þeirra eigin hugmyndir um kennslu. Helstu aðferðir sem notaðar verða eru:

Dagbækur

  • Kennarar færa dagbókarfærslur um kennslu sína með sérstaka athygli á þá þætti sem fela í sér sköpun, skapandi kennsluhætti og tækifæri nemenda til sköpunar. Dagbókarfærslur fela t.d. í sér:
    • Staðreyndaupplýsingar; hvar, hvenær, hver, hvernig og hvers vegna?
    • Ígrundun eða vangaveltur um ákveðna þætti
    • Nákvæm skráning á ákveðnum atburði eða aðstæðum
    • Stuttar frásagnir (sjá t.d.Jóhanna Einarsdóttir, 2012)

Athuganir

  • Kennari fylgist með nemendum og vinnu þeirra og skráir hjá sér á skipulagðan hátt
    • Stundum eru notaðir gátlistar þegar fylgjast á með sérstökum fyrirframskilgreindum þáttum
    • Ef við á eru teknar myndir eða myndbönd
  • Söfnun ýmiskonar áþreifanlegra gagna t.d.:
    • kennslulýsingar
    • skipulag námskeiða
    • skólanámskrár
    • bekkjarnámskrár
    • bréfa til foreldra (grunnskóla)
    • verkefni nemenda
  • Viðtöl verða tekin við nemendur og stjórnendur ef við á.
  • Samstarfs- og ígrundunarfundir þátttakenda verða skráðir og teknir upp afritaðir.

Rannsóknarferli af þessu tagi er ekki línulegt en í því skiptast á nokkur skref sem eru endurtekin nokkrum sinnum.

 

Þátttakendur og framkvæmd

Þáttakendur rannsóknarinnar eru þrír til fimm kennarar á Menntavísindasviði og verður leitað til kennara í mismunandi greinum s.s. stærðfræði, íslensku og listgreinum og með ólík sérsvið t.d. skóli án aðgreiningar og kennsla yngri barna.

Þrír til sex starfendur/kennarar sem kenna hver á sínu skólastigi leik-, grunn- og framhaldsskóla voru fengnir til samstarfs um rannsóknina.

Þátttakendur í rannsókninni eru:

  • Svanborg R Jónsdóttir lector á Menntavísindasviði sem stýrir rannsókninni
  • Edda Kjartansdóttir og Þórunn Blöndal á MVS
  • Sigríður Einarsdóttir á leikskólanum Aðalþingi
  •  Elsa Lyng Magnúsdóttir stærðfræðikennari í Réttarholtsskóla
  • Halldóra Pálmarsdóttir íslenskukennari í Öldutúnsskóla
  • Sverrir Árnason og Jóna Svandís Þorvaldsdóttir íslenskukennarar í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar

Rannsóknarhópurinn notar styttinguna RASKA yfir rannsóknina RAnnsókn um SKApandi skólastarf.  

Rannsóknin hófst í nóvember 2013 og stóð til hausts 2015.