Rannsóknarstofa um skóla án aðgreiningar

Texti

Skóli án aðgreiningar er opinber menntastefna landsins sem er bundin í alþjóðasamþykktir.

Hún snýst um bætta menntun kennara, skipulag skóla, náms og kennslu sem hefur að leiðarljósi vandaða menntun allra, lýðræði og félagslegt réttlæti í skólum.

Mynd
Image
""

Rannsóknarstofa um skóla án aðgreiningar / skóla margbreytileikans var stofnuð sumarið 2008.Skóli án aðgreiningar er ferli en síður markmið í sjálfu sér. Markmið skóla eru skýr í lögum og aðalnámsskrá og snúast um að hámarka gæði náms og kennslu og efla færni nemenda til þátttöku í lýðræðis þjóðfélagi samtíma og í hinu víðara hnattræna samfélagi manna.

 
Hlutverk og markmið

  • Að efla og stunda rannsóknir og þróunarstarf á sviði skóla án aðgreiningar
  • Að miðla þekkingu og veita ráðgjöf á sviðinu til skóla, stofnana og stefnumótenda
  • Að efla og treysta innlend og erlend tengsl og taka þátt í alþjóðlegri þekkingarsköpun á fræðasviðinu
  • Að hvetja háskólanemendur í rannsóknar- og þróunarverkefnum á framhaldsstigi og skapa þeim aðstöðu til að stunda rannsóknir á sviðinu
  • Að standa fyrir málþingum og stuðla að útgáfu fræðilegs efnis á sviðinu

Starfsemin hefur verið blómleg. Meðal annars hefur rannsóknarstofan staðið að einu til tveimur málþingum á ári frá árinu 2008 sem hafa verið afar vel sótt. Enn fremur höfum við gefið út eina kennslufræðibók "Nám fyrir alla".

     

    Samstarf

    Eftirtaldir aðilar hafa lagt stuðning sinn við Rannsóknarstofuna og eiga þakkir skyldar:

    • Menntasvið Reykjavíkurborgar
    • Menntavísindasvið Háskóla Íslands
    • Öryrkjabandalag Íslands

     

    Fomaður:

    • Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, opj@hi.is

     

    Meðstjórnendur:

    • Hermína Gunnþórsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri
    • Fulltrúi nemenda í framhaldsnámi í sérkennslufræðum við HÍ

     

    Ábyrgðarmaður

    •  

                                
    Ráðgjafi stjórnar er Freyja Haraldsdóttir

    Í nýjum lögum um almenna grunnskóla  kemur í fyrsta sinn fram í lagatexta hugtakið skóli án aðgreiningar. Gera má ráð fyrir því að þessi nýju lög verði aflvaki fyrir skóla í landinu og getu þeirra til að koma til móts við vaxandi fjölbreytileika innan nemendahópsins og veita hverjum og einum góða og viðeigandi menntun.
     
    Skóli án aðgreiningar er opinber menntastefna landsins sem er bundin í alþjóðasamþykktir. Hún snýst um bætta menntun kennara, skipulag skóla, náms og kennslu sem hefur að leiðarljósi vandaða menntun allra, lýðræði og félagslegt réttlæti í skólum.

    Þessi menntastefna er ein af þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og yfirlýst menntastefna Evrópusambandsins og fjölmargra annarra ríkja og alþjóðastofnana.
     
    Á annan tug fræðimanna við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri starfa nú að rannsóknum sem tengjast fræðasviðinu skóli án aðgreiningar.

    Rannsóknarstofan er ætluð sem samstarfsvettvangur þessara aðila og erlendra fræðimanna, stúdenta í framhaldsnámi (meistara- og doktorsnámi), skólayfir-valda, skólanna, starfsfólks skólanna, foreldra og hagsmunafélaga nemenda með sérþarfir í námi.

     

    Minnisblað um skóla án aðgreiningar og stofnun rannsóknarstofu
     
    Skóli án aðgreiningar er bæði menntastefna, byggð á hugmyndum um manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti – og aðferð við að skipuleggja skóla, skólakerfi og kennslu allra nemenda skólans.
     
    Allir nemendur eru eins og orðanna hljóðan – allir nemendur hvers skóla og skólakerfis – nemendur sem eru óvenju hæfileikamiklir t.d. á tilteknum sviðum til dæmis í tónlist, stærðfræði eða íþróttum, nemendur sem eiga sér annan menningarlegan uppruna en allur þorri nemenda, nemendur með sérþarfir í námi vegna t.d. vanda við að ná tökum á lestri eða á hegðun, óframfærir nemendur, nemendur með fötlun o.sv. frv.
     
    Skóli án aðgreiningar er ferli en síður markmið í sjálfu sér. Markmið skóla eru skýr í lögum og aðalnámsskrá og snúast um að hámarka gæði náms og kennslu og efla færni nemenda til þátttöku í lýðræðis þjóðfélagi samtíma og í hinu víðara hnattræna samfélagi manna.
     
    Vinnubrögð taka fremur mið af samvirku námi (cooperative learning), leitarnámi og rannsóknarnámi en fræðilegri miðlun kennara frá púlti. Þannig er námið og kennslan bæði einstaklingsmiðað og tekur mið af þörfum hópsins alls.

    Rannsóknir sýna að slík vinnubrögð eru mun vænlegri til að hámarka gæði náms og kennslu allra nemenda en hefðbundnari kennsluaðferðir. Þó er stundum mikilvægt að vinna í einsleitum hópum t.d. þegar verið er að þjálfa tiltekna færni. Hefðbundið fræðara hlutverk kennara á einig rétt á sér en ekki sem aðal kennsluaðferð eins og nú er víða í skólum.

    Áhersla er á að nemendur vinni saman í hópum, þar sem nemendur hafa ólíkar þarfir og styrk, en líka í hópum þar sem nemendur standa líkt í getu sem og einstaklingslega. Þetta fer eftir því hvað nemendum er ætlað að læra á hverjum tíma – og tekur mið af námsskrám.
     
    Nemendur þurfa ekki alltaf að vera allir saman og vinna saman – því má gera ráð fyrir að einn eða fleirri nemendur fái kennslu utan skólastofu ef þurfa þykir, en allir tilheyra bekk. Kennarar og aðrir starfsmenn skóla vinna saman bæði við undirbúning og í kennslustundum. Áhersla er á sveigjanleika í samstarfi.
     
    Skólinn kappkostar að vera lifandi náms- og félagslegt samfélag nemenda og kennara, ryðja burt hindrunum sem útiloka aðgengi einstakra nemenda að náminu og samfélaginu og efla að sama skapi allt það sem tengir fólk og treystir samstöðu.

    Skólinn sem stofnun þarf að taka mið af þessu og skipuleggja nám, kennslu og þátttöku allra bæði starfsfólks og nemenda með sveigjanlegri hætti en nú er – og forðast einhliða flokkanir nemenda. Námsmat þarf að taka mið af þessu og verða fjölbreyttara en nú er.
     
    Raddir nemenda og foreldra þurfa að heyrast betur en nú er – og vega þyngra. Það þarf að styðja og efla kennara til að vinna betur saman en nú er – og efla stoðþjónustu við skólana. Nánast öll börn og unglingar geta sótt almenna skóla, en það þarf að gera skólunum betur kleift að mæta óvenjulegum sérþörfum einstakra nemenda og til þess þarf að efla sérkennslufræði í almennum skólum – og sérkennslufræði í menntastofnunum kennara.
     
    Skóli án aðgreiningar vinnur að því að efla félagsauð nemenda og fjölskyldna innan og milli hópa í samfélaginu og treysta bönd skilnings, samstöðu og virðingar fyrir sjónarmiðum annarra. Skólastefnan og skipulag og vinnubrögð henni tengd miðar því ekki einungis að gæðanámi heldur er hún til þess fallin að efla gagnkvæman skilning og virðingu á milli ólíkra einstaklinga og hópa og því samstöðu í lifandi og síbreytilegu samfélagi.
     
    Sérgreind úrræði svo sem sérskólar og sérdeildir eiga enn rétt á sér í undantekningar tilfellum – og þar býr mikilvæg þekking og reynsla sem þar er sé til reiðu fyrir starfsfólk almennra skóla. Foreldrar þurfa að eiga val um skóla fyrir börn sín.

    • Bókin Social Policy and Social Capital-Parents and Exceptionality 1974-2007 eftir Dóru S. Bjarnason. NOVA science publishers.
    • Bókin Nám fyrir alla-Undirbúningur, kennsla og mat í skóla margbreytileikans. Þýðingu annaðist Ásta Björk Björnsdóttir sérkennari og kennsluráðgjafi. Á vegum Rannsóknarstofu um skóla án aðgreiningar
    • Grein um skóla án aðgreiningar eftir Dóru S. Bjarnason: What is (Special) Education. (Ný útgáfa frá mars 2010).
    • Við og “Hinir”: Mannauður og menntun allra eru dýrmætasta eign Íslands. Grein eftir Dóru S. Bjarnason, birtist í Fréttablaðinu 29. október 2008

     

    Rannsóknarverkefni

    Nemendur í framhaldsnámi í sérkennslufræðum eru mikill aflvaki í þessu árferði. Þeir eru í óða önn að undirbúa þróunarverkefni sem taka til skóla án aðgreiningar (skóla margbreytileikans), lýðræðis og félagslegs réttlætis í almennum skólum á öllum skólastigum.

    Stefnt er að því að RSÁA styðji við bakið á þessum þróunarverkefnum í samvinnu við skóla og skólaskrifstofa svo þau komist sem flest til framkvæmda.  

    • Verkefni sem tekur til nemenda sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður og úrræði skólans til þess að bæta líðan og árangur í námi
    • Notkun persónubrúða í skólastarfinu. Að nota brúður til þess að skapa fullorðnum leið að því að veita börnum félagslegan stuðning og efla mannréttindi í skóla
    • Stærðfræði byggð á skilningi leikskólabarna
    • Viðbrögð skólasamfélagsins við nemendum sem eiga erfitt með að hegða sér eftir settum reglum
    • Samstarf foreldra og leikskóla. Að efla samstarf leikskóla og foreldra kringum einstaklingsmiðað nám
    • Fullgild þátttaka allra í útinámi
    • Foreldrasamstarf í leikskóla margbreytileikans
    • Við erum einstök: Að nýta sameiginlega styrk og taka upp ný vinnubrögð í skólanstofunni sem miða að því að nemendur og kennarar eflist í samstarfi og líti á sig sem mikilvægan hluta af námshópi
    • Tveir til fjórir útvarpsþættir
    • Heildstæður skóli með barnið í brennidepli. Kennsla og stuðningur og heimanám ásamt tómstundastarfi sé samfelldur vinnudagur hjá nemendum og starfsfólki
    • Danska fyrir alla í 7.-9. bekk