Rannsóknarstofa um starfendarannsóknir
Hlutverk stofunnar er að stunda rannsóknir á sínu sérsviði, miðla þekkingu.
Jafnframt styðja við starfsþróun í skyldum starfsgreinum og skapa verðandi fræðimönnum, meðal annars meistara- og doktorsnemum, vettvang fyrir þátttöku í rannsóknum.
Starfendarannsóknir hafa verið að hasla sér völl á Íslandi undanfarin ár. Á Menntavísindasviði Háskóla Íslands hafa verið haldin námskeið um starfendarannsóknir á hverju ári um nokkurra ára skeið og meistaranemar hafa í vaxandi mæli kosið að búa lokaverkefnum sínum snið starfendarannsókna.
Fyrsta doktorsrannsóknin við Háskóla Íslands með þessu sniði leit dagsins ljós í mars árið 2011 en þá varði Karen Rut Gísladóttir ritgerð sem hún kallaði „I am Deaf, not illiterate“: A hearing teacher´s ideological journey into the literacy practices of children who are deaf.
Þó starfendarannsóknir (e. action research, practitioner research, lesson study, teacher research) eigi sér alllanga sögu á heimsvísu eru þær að kalla nýgræðingur hér á landi. Þess vegna teljum við sem höfum unnið slíkum rannsóknum brautargengi hér á landi brýnt að koma á laggirnar stofnun sem hefði það hlutverk að hlúa að slíkum rannsóknum en líka að stuðla að því að þeir sem þær stunda vandi til verka.
Markmið
Í samræmi við reglur um rannsóknastofur við Menntavísindasvið er það hlutverk Rannsóknastofu um starfendarnnsóknir að stunda rannsóknir á sínu sérsviði, miðla þekkingu, styðja við starfsþróun í skyldum starfsgreinum og skapa verðandi fræðimönnum, meðal annars meistara- og doktorsnemum, vettvang fyrir þátttöku í rannsóknum.
Jafnframt mun Rannsóknarstofa um starfendarannsóknir leitast við að efla starfendarannsóknir í skólum og leggja skólum til ráðgjöf í því samhengi.
Formaður
- Karen Rut Gísladóttir, lektor á Menntavísindasviði HÍ, karenrut@hi.is
Meðstjórnendur
- Hafdís Guðjónsdóttir, dósent á Menntavísindasviði HÍ
- Hafþór Guðjónsson, dósent á Menntavísindasviði HÍ
- Hjördís Þorgeirsdóttir, skólameistari Menntaskólans við Sund og doktorsnemi á Menntavísindasviði HÍ
Greinar og ritgerðir Íslendinga um starfendarannsóknir frá 2011
- Kristinsdóttir, G. & Fern, E. (2012). Young people act as consultants in child-directed research [rafrænt efni]: an action research study in Iceland. Child & Family Social work, 16(3), 287-297.
- Lísa Lotta Björnsdóttir. (2012). Fjárfest í framtíðinni. Starfendarannsókn í tengslum við innleiðslu á Uppeldi til ábyrgðar í leikskóla. Meistaraprófsritgerð. Reykjavík. Háskóli Íslands, Menntavísindasvið.
- Sigríður Birna Birgisdóttir. (2012). Sem viðmót þitt á aðra áhrif hefur. Umhyggja sem leiðarljós. Meistaraprófsritgerð. Reykjavík. Háskóli Íslands, Menntavísindasvið.
- Sigríður Ásdís Jónsdóttir. (2012). Rýnt í eigin starfshætti: Vegferð í þróun fagmennsku. Meistaraprófsritgerð. Reykjavík. Háskóli Íslands, Menntavísindasvið.
- Anna Magnea Hreinsdóttir, Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir og Jóhanna Einarsdóttir. (2011). Leikur – ritmál – tjáning. Starfendarannsókn um aukið samstarf leikskóla og grunnskóla. Ráðstefnurit Netlu - Menntakvika 2010.
- Elva Önundardóttir. (2011). Ég held bara að þau séu að læra á lífið sjálft: hvernig birtist samfélagið í einingakubbum í leikskóla? Meistaraprófsritgerð. Reykjavík. Háskóli Íslands, Menntavísindasvið.
- Guðrún Vera Hjartardóttir. (2011). Hið lifandi og kæfandi afl innan kennslustofunnar. Hvernig kennari vil ég vera? Meistaraprófsritgerð. Reykjvík. Listaháskóli Íslands, listkennsludeild.
- Gyða Kristmannsdóttir. (2011). Mikilvægi sköpunar í kennsluháttum: samþætting í verk- og listgreinum þar sem þjóðsagan fær líf: kennsluskipan og hugmyndir. Meistaraprófsritgerð. Reykjavík. Háskóli Íslands, Menntavísindasvið.
- Hafdís Guðjónsdóttir (2011). Rýnt í vinnubrögð starfendarannsókna. Ráðstefnurit Netlu - Menntakvika 2011.
- Hafþór Guðjónsson (2011). Kennarinn sem rannsakandi. Ráðstefnurit Netlu - Menntakvika 2011.
- Helena Björk Jónasdóttir. (2011). Mikilvægi samræðunnar milli heimilisfólks og starfsfólks öldrunarheimila: starfendarannsókn íþróttafræðings á Hrafnystu í Hafnarfirði. Meistaraprófsritgerð. Reykjavík. Háskóli Íslands, Menntavísindasvið.
- Hildigunnur Bjarnadóttir. (2011). „Þegar við vinnum saman er maður ekki einmana“ : starfendarannsókn grunnskólakennara með áherslu á að auka samvinnunám í kennslu. Meistaraprófsritgerð. Reykjavík. Háskóli Íslands, Menntavísindasvið.
- Karen Rut Gísladóttir. (2011). „I am Deaf, not illiterate“: A hearing teacher´s ideological journey into the literacy practices of children who are deaf. Doktorsritgerð. Reykjavík. Háskóli Íslands, Menntavísindasvið.
- Margrét Karlsdóttir. (2011). Undervisning og indlæring af ordforråd. Indlæring af ordforråd hos islandske folkeskoleelever i 8. klasse. En aktionsforskning i en undervisningsmetode. Reykjavík. Háskóli Íslands, Hugvísindasvið.
- Margrét Sverrisdóttir. (2011). „Ég hef aldrei látið nemendur blanda eins mikið geði“: starfendarannsókn. Meistaraprófsritgerð. Reykjavík. Háskóli Íslands, Menntavísindasvið.
Rannsóknir
Starfendarannsóknir hafa verið að hasla sér völl hér á landi á undanförnum misserum, bæði innan háskólasamfélagsins og á vettvangi skóla almennt.
Námskeið um starfendarannsóknir er nú fastur liður í starfsemi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og vaxandi fjöldi nemenda í meistaranámi hefur valið að sníða lokaverkefnum sínum búning starfendarannsókna.
Þá hefur starfsfólk í skólum farið að stunda slíkar rannsóknir. Menntaskólinn við Sund reið á vaðið árið 2005 en síðan hafa nokkrir skólar bæst í hópinn og má þar nefna Verslunarskóla Íslands, Borgarholtsskóla og Menntaskólann á Laugarvatni.
Í nefndum skólum hafa kennarar og jafnvel aðrir úr starfsliði skólanna, til dæmis stjórnendur, náms-ráðgjafar og bókasafnsfræðingar, myndað rannsóknahópa sem koma saman reglulega í því skyni að ræða um og rýna í rannsóknir þátttakenda.
Hvað eru starfendarannsóknir?
Í stuttu máli má segja að starfendarannsókn sé rannsókn sem starfsmaður gerir á eigin starfi í því augamiði að skilja það betur og þróa til betri vegar.
Grunnhugmyndin er að læra í starfi: taka til athugunar reynslu sem maður verður fyrir og þá með þeim ásetningi að átta sig betur á því sem maður er að gera og hvaða afleiðingar gerðir manns hafa.
Starfendarannsóknir hafa verið að hasla sér völl í skólum. Kennarar sem taka þátt í slíkum rannsóknum beina athyglinni að eigin starfsháttum og áhrifum þeirra á nemendur. Þeir taka til athugunar ákveðna og afmarkaða þætti í starfinu, prófa nýjar leiðir og kanna hvernig til tekst.
Lykilatriðið er alltaf skráning og gagnasöfnun, að maður skrái það sem gerist og afli gagna um það sem maður er að gera og hafi þannig eitthvað í höndunum til að greina og ræða um við aðra.
Í skólum er algengt að kennarar starfi saman að slíkum rannsóknum og hittist reglulega til að fara yfir gögn sem þeir hafa aflað. Í slíkum hópum gefst fólki líka tækifæri til að læra hvert af öðru og þróa þannig hugmyndir sínar og hugsun, bæði sem rannsakendur og kennarar.
(Tekið úr grein eftir Hafþór Guðjónsson sem birtist í Netlu árið 2008 undir heitinu Starfendarannsóknir við Menntaskólann við Sund.)
Starfendarannsóknir á Íslandi
Starfendarannsóknir hafa verið við lýði í einhverjum mæli hér á Íslandi um árabil eða allt frá þeim tíma þegar John Elliott kom hingað til lands á áttunda áratug síðustu aldar og hélt námskeið fyrir kennara á vegum Kennaraskóla Íslands (Jóhanna Einarsdóttir, 2009).
Þær virðast þó ekki hafa orðið vel kunnar og náð verulegri útbreiðslu fyrr en upp úr aldamótunum síðustu og þá einkum fyrir tilstilli Hafdísar Guðjónsdóttur (2000, 2004) og Hafþórs Guðjónssonar (2002, 2003) sem stunduðu doktorsnám á þessu sviði, Hafdís í Bandaríkjunum en Hafþór í Kanada.
Komin heim til Íslands stofnuðu þau til námskeiða um starfendarannsóknir innan Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og hafa að auki leiðbeint fjölda meistaranema sem valið hafa lokaverkefni sínu snið starfendarannsókna og lagt kennurum í skólum lið með slíkar rannsóknir (Hafþór Guðjónsson, 2008).
Þá hefur Jóhanna Einarsdóttir, prófessor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, beitt sér fyrir starfendarannsóknum og þá einkum meðal leikskólakennara og grunnskólakennara á yngsta stigi grunnskólans (Jóhanna Einarsdóttir, 2009, 2010).
Það segir sína sögu um gróskuna í starfendarannsóknum hér á landi að um það bil fjörutíu meistararitgerðir með sniði starfendarannsókna hafa litið dagsins ljós hér á landi frá aldamótum, flestar unnar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands en nokkar við Háskólann á Akureyri.
Einnig má geta þess að nýlega, nánar tiltekið í mars á þessu ári (2011), fór fram fyrsta doktorsvörn hér á landi á sviði starfendarannsókna en þá varði Karen Rut Gísladóttir ritgerð sína, „I am Deaf, not illiterate: A hearing teacher´s ideological journey into the literacy practices of children who are deaf.“ Var þessi vörn jafnframt fyrsta doktorsvörnin í kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
Starfendarannsóknir hafa líka náð fótfestu í almennum skólum hér á landi undanfarin ár, leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Menntaskólinn við Sund reið á vaðið árið 2005 en síðan hafa nokkrir skólar bæst í hópinn og má þar nefna Verslunarskóla Íslands, Borgarholtsskóla og Menntaskólann á Laugarvatni.
Í nefndum skólum hafa kennarar og jafnvel aðrir úr starfsliði skólanna, til dæmis stjórnendur, náms-ráðgjafar og bókasafnsfræðingar, myndað rannsóknahópa sem koma saman reglulega í því skyni að ræða um og rýna í rannsóknir þátttakenda (Hafþór Guðjónsson, 2008).
Á allra síðustu misserum hafa allnokkrir leikskólar og grunnskólar tekið upp starfsemi af þessu tagi.
(Að mestu tekiði úr grein eftir Hafþór Guðjónsson sem birtist í Netlu árið 2011 undir heitinu Kennarinn sem rannsakandi. Slóð:http://netla.hi.is/menntakvika2011/011.pdf)