Rannsóknastofur

Við Menntavísindasvið er starfrækt á þriðja tug rannsóknastofa. Markmið þeirra er að auka og efla rannsóknir hver á sínu fræðasviði, meðal annars með því að auka samvinnu rannsakenda, ekki síst þverfaglega og alþjóðlega og miðla þekkingu út í samfélagið.

1. gr. Hlutverk rannsóknarstofa
Rannsóknarstofur á Menntavísindasviði Háskóla Íslands eru faglega sjálfstæðar en heyra undir Mennta­vísindastofnun Menntavísindasviðs.
Hlutverk rannsóknarstofa er að stunda rannsóknir á sínu sérsviði, miðla þekkingu, styðja við starfsþróun í skyldum starfsgreinum og skapa verðandi fræðimönnum, meðal annars meistara- og doktorsnemum, vettvang fyrir þátttöku í rannsóknum.

Hlutverk rannsóknarstofa er jafnframt að vera vettvangur umræðu um fræðasviðið. Þær hafa fjárhagslegt bolmagn til að taka að sér verkefni eftir hentisemi. Stjórn hverrar rannsóknarstofu er frjálst að setja nánari ramma um starfsemi hennar, hlutverk og áherslur.

Rannsóknarstofum Menntavísindasviðs er ætlað að skapa umgjörð um rann­sóknir á tilteknu fræðasviði, styrkja þær og gera rannsóknastarfið sýnilegt umfram það sem einstakir fræðimenn geta gert. Þeim er ætlað að skapa vettvang til sam­vinnu og samræður innan sviðs og við aðila utan þess. Rannsóknarstofur skulu vinna saman til þess að tryggja samlegðaráhrif innan ramma Menntavísindastofnunar. Starfssvið stofa getur verið bæði þröngt (t.d. einstök verkefni) eða vítt, og verksvið kunna að skarast. Einstakar rannsóknarstofur geta því ekki eignað sér viðfangsefni eða fræðasvið.

Rannsóknarstofur fylgja almennum reglum Háskóla Íslands um alla þætti starfsemi sinnar. Menntavísindasvið lætur stofum í té starfsaðstöðu og stuðning, eins og fram kemur í reglum Menntavísindastofnunar, og eftir nánara samkomulagi eins og aðstæður leyfa. Þegar gefið hefur verið samþykki fyrir stofnun rannsóknarstofu er forsvarsmönnum hennar formlega heimilt að nota nafn og merki Háskóla Íslands í samskiptum sínum við aðila utan skólans.
 
2. gr. Stjórn rannsóknarstofa

Aðstandendur stofu skipa að lágmarki þriggja manna stjórn, til þriggja ára í senn, að höfðu samráði við forstöðumann Menntavísindastofnunar. Formaður stjórnar eða meiri hluti hennar skulu koma úr hópi fastráðins akademísks starfsfólks Mennta­vísindasviðs. Hlutverk stjórnar er að fylgja eftir markmiðum rannsóknar­stofu. Hún ber jafnframt ábyrgð á fjármálum stofu gagnvart stjórn Menntavísindastofnunar og forseta Menntavísindasviðs og stjórnar því hvaða verkefni eru unnin á hennar vegum. Formaður stjórnar skilar árlegri greinargerð um starf rannsóknarstofunnar (á þar til gerðu eyðublaði) til stjórnar Menntavísindastofnunar og forseta Menntavísindasviðs.
 
3. gr. Fjármál, rannsóknarverkefni og starfsemi rannsóknarstofa
Rannsóknarstofur hafa sjálfstæðan fjárhag á sérstöku verkefnanúmeri innan bókhalds HÍ og hafa möguleika til tekjuöflunar innan ramma reglna Mennta­vísindastofnunar um fjármál (sjá 10. gr.). Stofur lúta reglum Menntavísindasviðs um meðferð sjálfsaflafjár og reglum um starfsemi á vegum sviðsins. Rannsóknarstofum er heimilt að ráða forstöðumann og annað starfsfólk tímabundið fyrir sjálfsaflafé að fengnu samþykki rekstrarstjóra Menntavísindasviðs.

Verkefni sem akademískt starfsfólk hefur átt frumkvæði að eða aflað má telja til stofu með sam­þykki stjórnar hennar, en fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á þeim er eftir sem áður hjá því akademíska starfsfólki sem aflaði verkefnanna. Rannsóknarstofum er heimilt að taka að sér rannsókna-, þjónustu-, ráðgjafa-, starfsþróunar eða símenntunarverkefni sem ávallt skulu vera á ábyrgð þess akademíska starfsfólks Háskólans sem afla þeirra eða forstöðumanns Menntavísindastofnunar, skv. nánara samkomulagi. Um ábyrgð og skil allra slíkra verkefna skulu gilda reglur hliðstæðar þeim sem gilda um skil á rannsóknum (sjá 1. gr. í reglum Menntavísindasviðs um rannsóknarstarf innan fræðisviðs) og um meðferð sjálfsaflafjár (Verklagsreglur um nýtingu sjálfsaflafjár innan Háskóla Íslands).
 
4. gr. Stofnun og niðurlagning rannsóknarstofu
Einn eða fleiri akademískir starfsmenn Menntavísindasviðs geta sent stjórn Mennta­vísinda­stofnunar erindi með ósk um að stofna stofu á grundvelli þessara reglna. Í því skal tilgreint hverjir standa að stofunni og hvert sé hlutverk hennar. 

Menntavísindasviðs má eiga aðild að og sitja í stjórn fleiri en einnar stofu. Stjórn Menntavísindastofnunar gefur forsvarsmönnum skriflegt svar um stofnun rannsóknarstofu. Að gefnu leyfi fyrir stofnun stofu skal nafni hennar bætt á lista yfir rannsóknarstofur Menntavísindasviðs á vef skólans og skulu aðstandendur hennar gera upplýsingar um stjórn hennar og markmið aðgengileg á vef.

Stjórn stofu getur sent stjórn Menntavísindastofnunar ósk um að stofan verði lögð niður. Hafi liðið tvö misseri án þess að fundir séu haldnir í stjórn rannsóknarstofu eða berist ekki greinargerð um starfsemi hennar að loknum tilteknum fresti skal litið svo á að hún sé ekki lengur starfandi. 

Akademískur starfsmaður Menntavísindasviðs má eiga aðild að og sitja í stjórn fleiri en einnar stofu. Stjórn Menntavísindastofnunar gefur forsvarsmönnum skriflegt svar um stofnun rannsóknarstofu. Að gefnu leyfi fyrir stofnun stofu skal nafni hennar bætt á lista yfir rannsóknarstofur Menntavísindasviðs á vef skólans og skulu aðstandendur hennar gera upplýsingar um stjórn hennar og markmið aðgengileg á vef.

Stjórn stofu getur sent stjórn Menntavísindastofnunar ósk um að stofan verði lögð niður. Hafi liðið tvö misseri án þess að fundir séu haldnir í stjórn rannsóknarstofu eða berist ekki greinargerð um starfsemi hennar að loknum tilteknum fresti skal litið svo á að hún sé ekki lengur starfandi.

 
5. gr. Meðferð ágreinings
Ágreiningi um túlkun þessara reglna skal skotið til stjórnar Menntavísindastofnunar, en úrskurði hennar er hægt að áfrýja til stjórnar Menntavísinda­sviðs. Jafnframt getur stjórn Menntavísindastofnunar óskað eftir greinargerð stofa um tiltekin atriði og vísað ágreiningi til stjórnar Menntavísindasviðs.
 
6. gr. Gildistaka o.fl.
Starfsreglur þessar, sem samþykktar hafa verið af stjórn Menntavísindasviðs og stjórn Menntavísindastofnunar sbr. 4. gr. reglna nr. 1023/2009 um Menntavísindastofnun Háskóla Íslands (tóku gildi í maí. 2011). Hafi stofa eða rannsóknarstofnun sem þegar starfar við Menntavísindasvið gert samstarfssamning við Kennaraháskóla Íslands, fellur sá samningur úr gildi þegar þessar reglur hafa verið samþykktar, en heldur efnislega gildi sínu í samræmi við þessar reglur.

Hafið sambandi við Ellen Óttarsdóttur, verkefnastjóra fjármála, fyrir upplýsingar um rekstur rannsókna - ellen@hi.is